140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[17:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir mjög góða og fræðilega ræðu. Það er hressandi að líta á hlutina svona ópólitískt og vísindalega.

Hv. þingmaður kom inn á það að eftir að gullfóturinn var sleginn af, ég tel að það hafi verið Nixon sem gerði það, hafi seðlaprentunin getað hafist vegna þess að fram að þeim tíma voru allar myntir verðtryggðar miðað við verðlag á gulli. Þar áður var miðað við kýrverð, álnir, verð á fiski og annað slíkt sem einnig var verðtryggt, þannig að myntir hafa almennt séð verið verðtryggðar í mannkynssögunni. Eftir að gullfóturinn var tekinn af hefur seðlaprentunin farið á fullt og skuldir hafa getað myndast bara sisvona og það er kannski það sem við erum að glíma við í þessu dæmi.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann varðandi það sem hann sagði um málið: Er ekki einsýnt að hv. efnahags- og viðskiptanefnd taki þetta mál aftur inn til sín, ræði það í þaula í janúar og fái upplýsingar um hvernig það er unnið annars staðar? Það er greinilegt að málið hefur ekki fengið þá umræðu sem það þarfnast, hvorki í nefndinni né hér á Alþingi, ekki í 1. umr., það er ekki svo langt síðan hún fór fram. Ég held að það hafi verið á fimmtudaginn fyrir viku. Ég tel því brýnt út frá hagsmunum þjóðarinnar að þingmenn taki sig saman og veri varkárir í þessu máli og kanni hvað aðrar þjóðir eru að gera þannig að við hlaupum ekki til í einhverju meðvitundarleysi og samþykkjum svona gífurlegar skuldbindingar.