140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[17:46]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar skuldirnar er rétt að hafa það í huga að vegna þess að við vorum og erum enn þá með kerfi sem byggir á því að hægt sé að auka seðlaprentun eins og gert er, er hætta á lánabólum. Þegar lánabólur hafa myndast geta þeir sem eiga rentuberandi eignir ekki vænst þess að þau lán haldi verðgildi sínu vegna þess að það er bóla. Þess vegna hlýtur annaðhvort að verða verðbólga eða skuldir niðurfelldar.

Síðan varðandi það sem hv. þingmaður bendir á, þ.e. hvort gullfótur hefði komið í veg fyrir slíkt, er rétt að hafa í huga að það hafa komið lánabólur þrátt fyrir að gull sé undir.

Hvað varðar einhvers konar auðlindafót játa ég að ég hef ekki skoðað sérstaklega hvað Kínverjarnir eru að fást við þarna, en ég hef vissulega hugleitt það mál. Ég hef meðal annars hugleitt það út frá okkur Íslendingum. Við gætum velt fyrir okkur próteini, orku og öðru slíku (Forseti hringir.) sem eins konar fæti, en það er efni í aðra og langa (Forseti hringir.) umræðu.