140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[18:19]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. Ég talaði um í ræðu minni í dag að þetta væri nokkurs konar bakkabræðrahagfræði sem væri verið að iðka hér. Bakkabræðrahagfræði er það vegna þess að hér er verið að fá lánaða peninga hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í gjaldeyrisvarasjóð Íslendinga. Síðan eru þeir peningar færðir yfir til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Íslendingar geta talið það til gjaldeyrissjóðs síns. Þannig að fyrir mér virkar þetta eins og bakkabræðrahagfræði.

Ég verð að segja að ég er mjög hissa á málinu, en ég er sáttur við svar hv. þingmanns og tel það ágætislausn í málinu úr því sem komið er að taka þetta mál af dagskrá, setja það inn í efnahags- og viðskiptanefnd og við mundum síðan nota janúar til að komast að vitrænni niðurstöðu, sérfræðingar og aðrir verði kallaðir til sem listi upp fyrir okkur hvaða áhætta er fólgin í málinu. Ég held líka að í heilbrigðum lýðræðisþjóðfélögum sé allt í lagi að fram fari einhver þjóðfélagsumræða um mál af þessari stærðargráðu.