140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[18:49]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Hér er um gríðarlega háar fjárhæðir að ræða í samhengi við þær tölur sem við erum alla jafna að vinna með. 37,2 milljarðar er gríðarlega há fjárhæð. Er það rétt sem maður heyrir frá nefndarmönnum sem tekið hafa þátt í umræðunni að hv. nefnd sem hafði þetta til umfjöllunar hafi ekki verið tjáð að önnur ríki, bæði í Evrópu og utan Evrópu, hefðu miklar efasemdir um að auka fjármuni inn til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins líkt og þetta frumvarp gerir ráð fyrir? Það er gríðarlega alvarlegt ef efnahags- og viðskiptanefnd sem hefur á sinni könnu þetta mál sem ætlunin var greinilega að lauma á blússandi ferð í gegnum þingið, hefur ekki verið upplýst um efasemdir annarra þjóðríkja um þetta aukaframlag.

Annaðhvort hefur ríkisstjórnin leynt þessum upplýsingum og það er mjög alvarlegt, eða ríkisstjórnin er ekki upplýst um að önnur ríki hafi efasemdir um þetta og þá er mjög alvarlegt að ríkisstjórnin sem stýrir landinu kynni sér ekki málin betur.

Mig langar bara að fá þetta staðfest af því hv. þingmaður á sæti í nefndinni. Það virðist vera sem aðrir hv. þingmenn sem eiga sæti í þessari nefnd tjái sig lítt í þessu máli.