140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[18:54]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Þetta sem kom fram í andsvari hjá hv. þingmanni er mjög alvarlegt. Ef staðreyndin er sú að hv. efnahags- og viðskiptanefnd var upplýst af ríkisstjórninni í meðförum þessa máls um að það væri formsatriði að afgreiða málið og öll önnur ríki væru að greiða þetta þá er það gríðarlega alvarlegt.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að fréttir eru um þetta í öllum helstu miðlum erlendis. Ég vil benda á að Eistland, Kanada, Japan, Bandaríkin, Slóvakía, Ungverjaland og Búlgaría, þessi ríki hafa öll miklar efasemdir um þetta mál. Í Búlgaríu sagði utanríkisráðherrann við fjölmiðla í dag að hann yrði að fá mjög miklar upplýsingar um þetta mál áður en það yrði samþykkt í búlgarska þinginu. Staðan er eins í Þýskalandi, þýski seðlabankinn og fleiri þjóðríki hafa miklar efasemdir um þetta. Það er gríðarlega alvarlegt ef ríkisstjórnin hefur leynt upplýsingum um þetta og enn alvarlegra ef íslenska ríkisstjórnin er ekki upplýst um þær efasemdir sem uppi eru um samþykkt þessa máls í stærstu löndum heims.

Er hv. þingmaður sammála því að þetta ýti undir grunsemdir um að ríkisstjórnin sé ekki í neinum tengslum við raunveruleikann og það sem er að gerast í heiminum? Er ekki mikið áhyggjuefni fyrir okkur Íslendinga ef svo er ?