140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[20:32]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisspurningu. Þegar fundurinn fór fram í Bretton Woods árið 1948 var Ísland eitt af 29 ríkjum sem gerðust aðilar að stofnsáttmála Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans, og af því getum við verið mjög stolt. Á nákvæmlega sama hátt og Ísland var stofnaðili að Sameinuðu þjóðunum, sem ég er stoltur af, vorum við aðilar að hinu mjög svo merka Bretton Woods-samkomulagi.

Ef þær upplýsingar sem við höfum fengið frá Seðlabankanum reynast sannanlegar, og ef ekki koma upp neikvæðir þættir sem varpa rýrð á það, sé ég svo sem enga ástæðu til þess að við sjálfstæðismenn, eftir vandaða umfjöllun um málið og vandaðan málatilbúnað, hverfum frá þeirri meginstefnu okkar að vera þátttakendur í hinu alþjóðlega fjármálakerfi með því að vera fullgildir aðilar að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og að við gerum það á þann veg sem við höfum gert — ég tala að sjálfsögðu bara fyrir sjálfan mig. Við höfum tekið þátt í breytingum áður þó svo að það hafi aldrei áður leitt til umtalsverðra fjárútláta nema í upphafi í Bretton Woods.