140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[20:35]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Þetta er réttmæt og góð spurning. Ég sé það fyrir mér að við gætum orðið aðilar að FTP-prógramminu ef hagstjórn á Íslandi tæki þeim framförum að hér yrði stöðugur gjaldmiðill sem hægt væri að treysta á. Eins og hv. þingmanni er kunnugt höfum við sjálfstæðismenn lagt fram þingsályktunartillögu þar sem lögð er til hagstjórnarregla sem styður mun betur við peningamálastjórnina en gert hefur verið hingað til. Hægt er að segja að þetta sé agaregla fyrir stjórnmálamenn, þannig að Seðlabankinn þurfi ekki að beita stýritækjum sínum jafnharkalega og þarf við óreglubundna hagstjórn eins og tíðkuð hefur verið hér á Íslandi og reyndar í flestum öðrum vestrænum ríkjum.

Ég hef þá trú að ef við setjum okkur agareglur af því tagi muni hagsveiflan verða mun jafnari, vextir verða lægri og minni sveifla í þeim. Síðast en ekki síst yrðu afleiðingarnar af því stöðugra gengi sem hægt væri að treysta betur á en nú er hægt. Með slíkum reglum og fleiri agareglum, sem ég held að þurfi að setja íslenskum stjórnmálamönnum og íslenskum ríkisfjármálum, tel ég að við gætum orðið fullgildir (Forseti hringir.) aðilar að FTP-prógramminu innan (Forseti hringir.) tiltölulega fárra ára.