140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[20:58]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega ræðu. Hann fór vel yfir þetta og tók á mörgum þáttum málsins. Ég vildi eiga orðaskipti við hv. þingmann um efnisatriði í ræðu hans.

Hann nefndi Financial transactions plan eða fjárskiptaáætlunina. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að ef við værum með evru eða einhvern annan gjaldmiðil, kanadadollar, bandarískan dollar eða pund, væru meiri líkur á að hægt væri að draga á þetta. Hins vegar þurfum við að samþykkja þá áætlun. Við þurfum að vera skuldlausir við sjóðinn þannig að kannski eru nú einhverjir dagar í það.

Ég vildi vekja athygli hv. þingmanns sérstaklega á einu vegna þess að hv. þingmaður hefur sýnt að honum er afskaplega umhugað um fjármál íslenska ríkisins. Það kom fram að vaxtamunurinn á þeim 9,3 milljörðum sem lagðir eru inn í stofnfé Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þeim lánum sem við notum til að fjármagna gjaldeyrissjóðinn, þó að við getum áfram haft 9,3 milljarða í bókhaldinu, eða í raun bara kostnaðurinn við að setja þetta inn er um 400–450 milljónir á ári. Ég vildi vekja athygli hv. þingmanns á þessu vegna þess að ég held að það sé afskaplega mikilvægt að fjárlaganefnd fari yfir þennan þátt málsins því að 400 eða 450 milljónir, þrátt fyrir að þær komi ekki úr A-deild ríkissjóðs, eru miklir fjármunir. Síðast þegar ég vissi var Seðlabankinn í eigu ríkisins og á ábyrgð skattgreiðenda.