140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[21:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég kom einmitt inn á það í fyrri ræðu minni í dag, þegar þær upplýsingar lágu ekki fyrir sem liggja nú fyrir að hluta til, og nefndi það örstutt og sló þessu upp í huganum að þetta væru upp undir 500 milljónir vegna þess að 0,14% og 5,5% af 9,3 milljörðum er um 450 milljónir. Ég var því ekki langt frá þessu og ég velti einmitt fyrir mér í þeirri ræðu hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn væri líka með vexti á innstæðuna sem merkt er honum hjá Seðlabanka Íslands. Þá tikkar hún á hærri vöxtum. Ég gaf mér að ef upphæðin er tæpir 30 milljarðar og segjum bara að hún sé á 5% vöxtum, gerir það 1,5 milljarða. Það var því mjög mikilvægt að þessar upplýsingar kæmu fram, því þá erum við að tala um vaxtagjöld upp á um 2 milljarða sem eru neikvæðir fyrir ríkissjóð eða Seðlabankann sem er, eins og hv. þingmaður benti á, samasem ríkissjóður í þessu tilfelli vegna þess að skattborgararnir bera ábyrgð á honum. Það var mjög mikilvægt að þetta kæmi fram svo að menn geti átt efnislega umræðu um málið og tekið vitræna og upplýsta ákvörðun þegar greidd verða atkvæði í málinu.

Hv. þingmaður benti líka á að inni í myndinni væri auðvitað að við gætum tekið upp annan gjaldmiðil án þess að ganga í Evrópusambandið. Það er hárrétt og mikilvægt að menn átti sig á því. Nú upplýsti hv. þingmaður mig um nokkuð sem ekki kom fram í orðaskiptum hv. þingmanna hér á undan sem sátu saman nefndarfundi, að til þess að við gætum farið inn í fjárskiptaáætlunina þyrfti að fá samþykki hjá stjórnvöldum. Það kom ekki fram áðan þannig að eftir því sem við tölum meira um þetta líður manni betur, að minnsta kosti svona til að byrja með. Það er hins vegar gríðarlega mikilvægt að við höfum heildarmynd yfir fjárskuldbindingar ríkissjóðs. Öðruvísi en að vita um hvað við erum að fjalla á hverjum tíma (Forseti hringir.) getum við ekki náð tökum fjármálunum.