140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[21:04]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að það er mjög óskynsamlegt að eyða öllum þessum tíma í þingsal til að ræða mál sem vantar klárlega upplýsingar um hvernig er í raun og veru í pottinn búið. Hér hefur verið kallað efnislega eftir fullt af atriðum. Ég þóttist hafa kallað eftir þessum upplýsingum í fyrri ræðu minni eða þeim þremur þáttum sem hafa komið fram í kvöld sem lágu ekki fyrir, hvorki í frumvarpinu né nefndaráliti eða öðru, ekki komu neinir hv. stjórnarliðar í andsvör. Það er væntanlega vegna þess að þeir hafa ekki vitað þetta heldur. Það er miklu skynsamlegra og eðlilegra að vinna málið í nefndinni.

Ég segi fyrir mitt leyti að það er með ólíkindum að þegar verið er að fjalla um mál sem snertir 40 milljarða skuldbindingu ríkissjóðs sé þetta gert svona. Svo ræða menn mál sem varða kannski örfáar milljónir í útgjöld klukkutímum saman. Það er mjög mikilvægt að menn vandi vinnu við þetta mál.

Ég ítreka það sem ég sagði í fyrri ræðu, ég teldi mjög skynsamlegt fyrir hv. efnahags- og viðskiptanefnd að gera samkomulag um að taka málið á dagskrá, með hliðsjón af þeim minnisblöðum sem beðið er eftir frá Seðlabankanum, og meti hvort kalla þurfi fleiri gesti á fund nefndarinnar. Þá væri eðlilegra að afgreiða málið bara í janúar því ég get ekki séð að þetta sé dagsetningarmál, það er verið að bíða eftir fullt af öðrum þjóðum og ekkert mun gerast í málinu. Það eina sem mun gerast er að vinnubrögðin verða vandaðri. Þeim spurningum sem fram hafa komið í umræðunni í dag verður væntanlega svarað og þá líður öllum mikið betur með málið, sama hvort það eru stjórnarþingmenn eða stjórnarandstöðuþingmenn. Þannig eigum við auðvitað að vinna því reynslan hefur sýnt okkur í gegnum tíðina að við þurfum að vanda vinnubrögðin mun betur (Forseti hringir.) en við höfum gert hingað til.