140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[21:33]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þetta eru áhugaverðar umræður sem hér eiga sér stað. Ef við berum þetta saman við Icesave-skuldbindinguna, sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson gerði í dag, er þetta 5 milljarða kr. hærri skuldbinding fyrir ríkissjóð en seinni Icesave-samningurinn hljóðaði upp á. Þjóðin felldi þann samning svo eftirminnilega í þjóðaratkvæðagreiðslu og nú hefur ESA ákveðið að taka það mál fyrir hjá EFTA-dómstólnum.

Það sem skiptir máli við þetta frumvarp í samanburði við Icesave er það að hér er raunverulega verið að gefa loforð fyrir því að til reiðu verði tæpir 40 milljarðar fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þegar hann þarf á að halda. Það eru mjög miklar líkur á því að dregið verði á það lánsloforð vegna ástandsins á alþjóðamörkuðum eins og mál standa núna. Mörg ríki Evrópusambandsins eru að lækka í lánshæfismati þannig að hættutímar eru á ferð og því skulum við ekki gleyma í þessu sambandi. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn samþykkir enda að fara í þessar aðgerðir hjá þeim ríkjum sem eru aðilar að sjóðnum til að stækka efnahagsreikning sinn og vera þá betur í stakk búinn til að mæta áföllum sem ríki verða fyrir. Þannig að hér er um raunverulega hættu að ræða.

Ef við berum þetta svo saman við Icesave-málið, sem er nú komið fyrir EFTA-dómstólinn, eru ákvæði í því í sambandi við innstæðutryggingarsjóðinn að fari málið á versta veg eigi, samkvæmt reglugerðum, að greiða það út í íslenskum krónum. Við vitum að við getum, með þennan sjálfstæða gjaldmiðil hér, mætt áföllum af þeim toga. Þó að það sé ekki gott fyrir efnahagslífið að prenta seðla í Seðlabankanum, þá er hægt að mæta því á þann hátt fari Icesave-málið á versta veg sem ég trúi ekki — ég trúi því að við Íslendingar höfum sigur í því máli. Það mál var umdeilt á sínum tíma og hefur komið inn í þingið síðastliðna tvo desembermánuði; og hér er um að ræða stærri skuldbindingu en seinna málið.

Mér finnst umræðan um þetta því svolítið léttvæg, t.d. hjá stjórnarliðum. Þeir sjást ekki hér í þingsal, þeir ræða þetta ekki. Stjórnarmeirihlutinn fer auðvitað með formennsku í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og málið er allt illa unnið. Það er ekki í fyrsta sinn, herra forseti, sem ég geri athugasemdir við þingmál, frumvörp, sem koma frá þessari ríkisstjórn.

Málið er það illa unnið að það kom á dagskrá þingsins 6. desember og er nú hér til umræðu. Málið hefur ekki verið sent út til hagsmunaaðila til umsagnar og ég gagnrýni það mjög. Við höfum bara einhliða upplýsingar, í raun einvörðungu það sem stendur í frumvarpinu, því að skuldbindingin er svo gríðarleg.

Ég velti hér upp áðan í andsvari hvort ekki mætti halda því fram að um fullveldisframsal væri að ræða. Ég efast ekki um það, Icesave var til dæmis talið skerða fullveldi okkar á einhvern hátt. Þarna er alþjóðleg stofnun beinlínis að eignast hlutdeild í gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans, okkar sameiginlega sjóði. Það er orðið frekar einkennilegt. Það er ekki nóg með að við séum með allan gjaldeyrisvaraforðann að láni og þá að veði — þau veð sem voru lögð fram í því tilliti — heldur má segja að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eignist þarna hlutdeild í Seðlabankanum.

Ég gerði líka athugasemd við fylgiskjal II frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins þar sem þess er sérstaklega getið að ekki sé gert ráð fyrir því að lögfesting þessa frumvarps hafi í för með sér bein útgjöld eða skuldbindingar á A-hluta ríkissjóðs. Við þetta geri ég alvarlegar athugasemdir, sérstaklega í ljósi þess að þarna renna strax út 9,3 milljarðar. Þannig að þetta er fært á annan hátt.

Seðlabanki Íslands er náttúrlega, eins og allir vita, með ríkisábyrgð þannig að það er alltaf íslenska ríkið sem að lokum stendur þar að baki. Það er að vísu einn munur á þessu og Icesave því að í Icesave-samningunum, sem voru túlkaðir sem glæsileg niðurstaða, var um fullveldisafsal að ræða og friðhelgisréttur þjóðarinnar var fyrir borð borinn.

Hæstv. fjármálaráðherra skrifar hér hvert frumvarpið á fætur öðru, leggur það fyrir þingið án útskýringa og í tengslum við hvert og eitt þeirra er tugum milljarða dælt úr ríkissjóði. Allar þær ríkisábyrgðir sem hæstv. fjármálaráðherra hefur undirritað í sinni tíð eru mjög alvarlegs eðlis og nú þetta — það verið að leggja klafa á komandi kynslóðir.

Herra forseti. Ég las upp úr ræðum hv. fjármálaráðherra í dag frá því hann var stjórnarandstöðuþingmaður. Það er einkennilegt að lesa ræður og nefndarálit frá hæstv. fjármálaráðherra sem var í stjórnarandstöðu þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tók ákvörðun um að koma okkur til hjálpar og lána Seðlabankanum gjaldeyri í hruninu; það er algjörlega búið að skipta um plötu í höfðinu á hæstv. fjármálaráðherra. Á haustdögum 2008, strax eftir hrunið, fann hann Alþjóðagjaldeyrissjóðnum allt til foráttu og taldi hann handbendi hrægamma og taldi að jafnvel ætti ekki að leita aðstoðar hjá sjóðnum.

Nú eru hæstv. fjármálaráðherra og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eitt, og hér er líklega á ferð einhver vinargreiði. Í frumvarpinu kemur fram að þrátt fyrir að þessu eigi helst að vera lokið fyrir 31. desember á þessu ári er alveg skýrt ákvæði um það að framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins getur framlengt þann frest að eigin vild. Það þyrfti því ekki nema einn tölvupóst eða eitt fax til að fara fram á það við framkvæmdastjórn sjóðsins að gefa okkur frest til að innleiða þessar skuldbindingar.

En það má ekki styggja hið svokallaða alþjóðasamfélag. Hæstv. fjármálaráðherra hefur einnig skipt um skoðun í ESB-málinu og berst nú fyrir því með kjafti og klóm að við göngum þar inn sem sýnir okkur að um mikil kosningasvik er að ræða. Þetta snýr að sjálfsögðu líka að björgun ríkja í Evrópusambandinu, þannig að þegar upp er staðið veit maður ekki hvort hæstv. fjármálaráðherra er í Samfylkingunni eða hvort hann er formaður Vinstri grænna.

Hér eru alvarlegir hlutir að gerast. Hæstv. fjármálaráðherra gagnrýndi þetta allt á haustdögum 2008 en við það eitt að skipta um stól í þingsalnum er hann nú tilbúinn að ganga þá sömu braut á enda. Fólk sem velst á Alþingi verður að hafa ríka réttlætiskennd fyrir hönd þjóðarinnar, standa við fyrri orð, þau orð sem eru á kosningastefnuskrám flokkanna. Það hefur hæstv. fjármálaráðherra svo sannarlega ekki gert því að komið hefur í ljós að hann hefur skipt um skoðun nánast í hverju einasta máli.

Málið hefur nú farið fyrir efnahags- og viðskiptanefnd á nýjan leik og einhver svör hafa borist en þó ekki fullnægjandi, að mati hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Mér finnst tímabært, og ítreka það sem ég sagði í fyrri ræðu minni í dag, að leggja þetta mál til hliðar. Það á að taka það af dagskrá þingsins til að þingmenn geti unnið betur í því og til að til þess bærir aðilar geti svarað þeim spurningum sem þingmenn hafa — hæstv. fjármálaráðherra getur nefnilega ekki, herra forseti, séð af tíma sínum í dag til að sitja fyrir svörum hér í þingsal þó að málið sé á hans forræði.

Þegar um er að ræða jafnalvarlegt mál og þetta er bagalegt að ráðherrar skuli ekki sitja í þingsal og svara þeim spurningum sem vakna. Í þess stað skiptast þingmenn hér á skoðunum og enginn hefur almennileg svör við spurningum sem hæstv. fjármálaráðherra ætti að sjálfsögðu að svara. Þegar ráðherra leggur fram frumvarp hlýtur hann að vera nokkuð vel að sér í þeim málum, eða það skulum við vona. Það er ekki hægt að fara fram á meira.

Virðulegi forseti. Ég ítreka þá skoðun mína að taka eigi þetta mál af dagskrá tafarlaust svo að hægt sé að greiða fyrir þingstörfum og ljúka þeim málum sem þarf að ljúka því að þetta mál er ekki nógu vel unnið.