140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

sjúkratryggingar.

359. mál
[22:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Vegna orða hv. þingmanns og tilvísunar sem er að finna í nefndaráliti minni hluta velferðarnefndar til umsagnar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, sem dagsett er 9. desember sl., tel ég rétt að fram komi að umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga er að sjálfsögðu um það frumvarp sem fram var lagt þar sem fyrir mistök var gert ráð fyrir frestun til tveggja ára en ekki eins. Eftir að útskýrt hafði verið fyrir lögfræðingi Sambands íslenskra sveitarfélaga hvernig í pottinn var búið, sem heyra mátti af ræðu ráðherra, barst tölvupóstur sem gerð var grein fyrir í hv. velferðarnefnd þar sem fram kemur að hann fái ekki séð að Samband íslenskra sveitarfélaga fari að leggjast gegn samþykkt frumvarpsins ef gerð er sú breyting að frestunin taki til eins árs en það er akkúrat það sem gert er hér.

Í nefndaráliti meiri hlutans kemur fram, með leyfi forseta:

„Í ljósi reynslunnar af yfirfærslu málefna fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga bendir meiri hlutinn á nauðsyn þess að samningar verði gerðir við stofnanir sem annast þjónustu við aldraða samhliða þeirri undirbúningsvinnu sem nú er hafin við yfirfærslu þess málaflokks til sveitarfélaga.“

Þetta er það sama og hæstv. ráðherra lagði áherslu á í framsögu sinni með málinu við 1. umr. Ég tel rétt að þetta komi fram, herra forseti.