140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

sjúkratryggingar.

359. mál
[22:04]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. formanni nefndarinnar fyrir að koma upp og vekja athygli á umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga sem ég hreinlega gleymdi að minnast á í ræðu minni. Það er rétt að umsögnin barst við frumvarpið sem lagt var fram enda ekkert annað sem þeir sem senda inn umsagnir að eigin frumkvæði geta stuðst við og er því augljóst að sambandið var alfarið á móti þeirri hugmynd í frumvarpinu að hafa frestinn tvö ár.

Efnisatriðin sem fram koma í umsögn sambandsins eru nokkuð sem við eigum að horfa til. Ég sé að meiri hlutinn hefur tekið upp texta sem fram kemur í umsögn sambandsins í álit sitt varðandi yfirfærslu málefna fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga. Það var því mjög þarft að fá þessa umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Ég tel reyndar að það hefði verið málinu til framdráttar ef það hefði verið sent út til umsagnar til hlutaðeigandi aðila. Við höfðum miðað við hvað við gefum stundum stuttan umsagnarfrest á þessum árstíma en það hefði einfaldlega bætt málið að fá umsagnir því að það er svolítið ankannalegt að þurfa að vísa í ársgamlar umsagnir þótt þetta sé sambærilegt mál. Það gefur ekki, að því er ég tel, nægilega skýra heildarmynd af málinu en er engu að síður það eina sem ég hef í höndunum.