140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

sjúkratryggingar.

359. mál
[22:05]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það verður að segjast eins og er að það eru afskaplega mikil vonbrigði að þetta mál sé hér fram komið. Tekist var á um þetta á nákvæmlega sama tíma árs í fyrra. Ég ætla ekki að deila neitt meira við þann aðila sem ég átti kannski mest samskipti við um þetta mál eða nefna hvað okkur fór á milli en við getum sagt að gefin hafi verið mjög góð fyrirheit um að málið yrði klárað. Það sér hver maður að ef vilji væri fyrir hendi yrði auðvelt að klára þetta mál á einu ári. Það er ekki hægt að segja annað, virðulegi forseti, miðað við það svar sem kom við fyrirspurn frá hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni en að þetta byrjaði vel.

Byrjað var á að taka út af óháðum aðilum uppskiptingu Sjúkratrygginga Íslands og Tryggingastofnunar. Það er skemmst frá því að segja að það gekk mjög vel og miðað við þá úttekt er ekkert sem mælir með því að fara aftur í sama farið, þvert á móti virðast báðar stofnanir hafa skilað betra starfi og þeim verkefnum sem þeim var falið að sinna var sinnt betur hvorri í sínu lagi en saman og kemur það ekki á óvart.

Fyrir þá sem ekki þekkja til snerist þetta í grófum dráttum um að skipta Tryggingastofnun upp í annars vegar það sem snýr að heilbrigðismálum og hins vegar það sem snýr að félagslegum málum. Markmiðið með stofnun Sjúkratrygginga — það er skref sem á eftir að stíga — var líka að skapa forsendur fyrir breytingu og stýringu á fjárstreymi í heilbrigðiskerfinu með kostnaðargreiningu, blandaðri fjármögnun, útboðum og þjónustusamningum og eflingu gæða- og kostnaðareftirlits.

Virðulegi forseti. Þetta er ekki íslensk uppgötvun. Þetta er ekki uppgötvun stjórnmálaflokks eða einstaklinga á Íslandi. Þetta er reynsla annarra Norðurlandaþjóða. Þegar menn fóru af stað í þessa vegferð voru þeir búnir að skoða hvað var að gerast annars staðar á Norðurlöndum. Sérstaklega skoðuðu menn það sem var að gerast í Svíþjóð og vorum við svo lánsöm að hafa góðan aðgang að m.a. Íslendingum sem störfuðu í kerfinu þar og gátu upplýst um það sem gengi vel en ekki síður — sem er jafnvel mikilvægara — hvað hefði farið úrskeiðis því að oft fer eitthvað úrskeiðis þegar breytt er um stefnu og nýjar leiðir farnar.

Það er búið að kalla eftir því í áratugi, virðulegi forseti, frá þeim stofnunum sem sinna heilbrigðisþjónustu að fá samninga. Hví skyldi það vera, virðulegi forseti? Hví skyldu menn vilja fá samninga? Vegna þess að þeir vilja að það sé skilgreint hvað þeir eiga að gera, það er ekkert flóknara en svo, og að það sé skynsemi í því og fylgni milli þess hvað er gert og fyrir hvað er borgað. Hér á landi er það ekki þannig. Það er alveg sama við hvern hv. þingmenn tala í heilbrigðisþjónustunni þeir munu alltaf fá sömu svörin frá hverjum einasta aðila sem sinnir heilbrigðisþjónustu. Þau eru að skilgreina þarf hvað hver á að gera og semja um það. Það er allra hagur, ekki síst sjúklinganna sem þurfa á þjónustunni að halda. Það er enginn vafi, virðulegi forseti, á að við gætum nýtt fjármunina betur ef við stigum þetta skref. Það eru engin dæmi þess að þegar menn hafi stigið þessi skref hafi það orðið til þess að þeir vilji snúa til baka.

Það eru gríðarleg vonbrigði að menn hafi ekki klárað þetta verkefni á árinu sem er að líða. Ég verð að viðurkenna að mér finnst ekki traustvekjandi þegar kemur síðan frumvarp á elleftu stundu og ekki er einu sinni kallað eftir umsögnum og sagt þar að fresta eigi gildistöku um þrjú ár. Því miður, virðulegi forseti, jafnsammála og við hv. þingmenn sem og landsmenn allir erum um mikilvægi þess að hafa góða heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn hefur skort á það að menn hafi fylgt því eftir með stefnumótun.

Einhver kynni að segja: Það er erfitt þegar eru minni fjármunir. Virðulegi forseti, það er alltaf erfitt, líka þegar eru meiri fjármunir því að þá eru kröfurnar enn meiri. Því miður höfum við horft upp á það undanfarna daga þegar gengið var frá fjárlagafrumvarpinu að samið var um fjárútlát út og suður í tengslum við heilbrigðisþjónustuna og það er einkenni þess að það er ekki verið að vinna eftir stefnu.

Virðulegi forseti. Nú veit ég alveg að það er fátt sem kemur í veg fyrir að þetta fari í gegn og enn og aftur tökum við fyrir stór mál sem lítil umræða verður um. Núna í þessum töluðu orðum er klukkan 13 mínútur yfir tíu á föstudagskvöldi. Ég á ekki von á því að við ræðum þetta mál neitt meira hér, þetta stórmál. Nú geri ég ekki þá kröfu að allir séu sammála mér í öllum málum, ég geri ekki einu sinni þá kröfu að allir séu sammála mér í heilbrigðismálum, en ég held að það sé skynsamlegt fyrir þjóðina og heilbrigðisþjónustuna að við tökum málefnalega umræðu um leiðir ef menn vilja fara aðrar leiðir en þær sem lagðar eru til í þessum lögum, við skulum átta okkur á því að þetta eru lög, við erum að fresta gildistökunni. Síðast þegar ég vissi, virðulegi forseti, var þetta stefna flestra stjórnmálaflokka og ég býst við því að það sé ekki síst vegna alþjóðlegra samskipta íslenskra stjórnmálaflokka að menn hafi lært af því sem gerist annars staðar.

Ég hef áhyggjur af íslenskri heilbrigðisþjónustu og ekki síst stefnuleysinu. Ég hef áhyggjur af því hvaða afleiðingar það getur haft og ég efast ekkert um að það hafi gert krefjandi verkefni erfiðari að fara út í sameiningu á stærstu ráðuneytum landsins. Félagsmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið voru sameinuð og þangað fara núna rúmlega 50% af ríkisútgjöldunum. Það var gert í nafni þess að betra væri að hafa færri og stærri ráðuneyti en mörg lítil. Dvergráðuneytin voru hins vegar látin standa á meðan búið var til sérstakt risaráðuneyti utan um það sem hefur verið kallað velferðarmál. Þetta var fyrst og fremst þráhyggjumál hæstv. forsætisráðherra sem nýtist fáum og allra síst þeim sem þurfa á þjónustunni að halda.

Ekki var kallað eftir umsögnum en það var gert í fyrra um nákvæmlega sama mál. Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir flutti hér afskaplega góða ræðu og er augljóst að hún hefur sett sig vel inn í mál og var framganga hennar í þessu máli henni til mikils sóma. Hún benti á að fyrir ári síðan voru umsagnir allar á einn veg: Ekki fresta, stígið þetta skref. Það var ekki gert þá og það er ekki gert núna. Virðulegi forseti, það eru mikil vonbrigði og slæmar fréttir fyrir þá sem þurfa á þjónustunni að halda.

Einhverra hluta vegna hefur því stundum verið haldið fram að það kalli á aukinn kostnað að fara þessa leið. Ekkert gæti verið fjarri sanni. Þetta snýst um að færa starfsmenn sem eru annars staðar, eins og á Landspítalanum og í heilbrigðisráðuneytinu, til Sjúkratrygginga og láta þá vinna að því að fylgja eftir þeim markmiðum sem ég nefndi áðan.

Virðulegi forseti. Ég hvet hv. þingmenn stjórnarliðsins og þá sérstaklega hæstv. ráðherra til að koma ekki hingað að ári liðnu með sama mál. (Gripið fram í: Það vantar ekki stefnuna.) Hér er kallað að stefnan hafi verið lögin frá árinu 2007 og ég hvet hv. þingmenn til að láta ekki hafa það eftir sér. Lögin frá árinu 2007 eru engin stefnumótun. Lögin frá 2007 eru ákveðinn lagarammi um heilbrigðisþjónustuna, ágætisskref, gott skref, en hafa ekkert með stefnumótun að gera. Ég hef aldrei heyrt nokkurn mann láta slíkt út úr sér fyrr en í umræðu um heilbrigðismál núna. Ég veit ekki hvernig stjórnarliðum datt slíkt í hug en þetta er samt sem áður nokkuð sem heyrist núna meðal þeirra og er kannski ekki sanngjarnt á föstudagskvöldi að vera að velta stjórnarliðum upp úr því en þar sem hv. stjórnarliði kallaði þetta fram í var ekki annað hægt en að bregðast við því.

Stóra einstaka málið er að þetta er vont frumvarp. Það er fyrst og seinast vont fyrir þá sem þurfa á þjónustunni að halda. Ég vona að við sjáum ekki þetta frumvarp aftur heldur sjáum við menn framkvæma það á næsta ári þannig að við getum rætt eitthvað annað en þetta vonda frumvarp.