140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

umboðsmaður skuldara.

360. mál
[22:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Lúðvík Geirsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessar athugasemdir og fyrirspurnir. Ég tek fyllilega undir það að þessi kostnaður er gríðarlega mikill enda er hér við viðamikið og þungt og erfitt verkefni að fást.

Ein skýringin á því af hverju þessi kostnaður hefur verið svo mikill sem raun ber vitni er sú að stofnunin hefur verið að úthýsa mjög stórum hluta af starfsemi sinni eins og hér var bent á. Eins og ég nefndi eru starfandi í dag um 150 lögmenn sem sérstakir umboðsmenn fyrir þessa stofnun. Það er alveg ljóst að þar þarf að verða breyting á og í viðræðum við ráðamenn stofnunarinnar var einmitt tekið á þessum þáttum og upplýst að umboðsmaður skuldara ætli á nýju ári að taka inn í stofnunina mun stærri hluta af þessu verkefni með því að ráða til starfa aðila sem munu yfirtaka að stærstum hluta þau verkefni sem hefur verið úthýst fram til þessa.

Það hefur líka sýnt sig að reynslan af starfi þeirra sem hafa sinnt þessum umboðsverkefnum hefur verið misgóð. En það sem skiptir þó mestu máli er að þau fyrirtæki sem greiða þennan kostnað upp á liðlega einn milljarð kr. á komandi ári hafa það auðvitað í hendi sér að stórum hluta hvernig til tekst í þessum efnum — hversu fljótt tekst að vinna úr þeim stabba sem fyrir liggur og hver kostnaðurinn verður — með því að bregðast við þeim verkum sem fyrir liggja og tryggja að hægt verði að ljúka þessu á sem skemmstum tíma.