140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

happdrætti fyrir Samband íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga.

257. mál
[22:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er á ferð frumvarp til laga um breyting á lögum um happdrætti SÍBS, með síðari breytingum. Þetta er lítið og einfalt mál sem ekki þarf að hafa mörg orð um. Með þessu frumvarpi er lögð til breyting á a-lið 1. gr. laga um happdrætti fyrir Samband íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga, SÍBS. Hún lýtur eingöngu að því að happdrættið fái heimild til að auka hlutatölu úr 75 þús. hlutum í 80 þús. hluti sem er til samræmis við heimild sem happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjúklinga hefur haft um árabil. Með þessu mun heildarfjárhæð vinninga hækka þar sem miðafjöldi verður meiri, auk þess sem opnað verður fyrir nýja númeraseríu hjá happdrættinu, þ.e. miða númer 75 þús. til 80 þús. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Full samstaða var milli fulltrúa í nefndinni um málið. Tveir nefndarmanna voru fjarverandi við afgreiðslu þess.