140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

fólksflutningar og farmflutningar á landi.

192. mál
[23:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á því að gera aftur orð hv. þm. Eyglóar Harðardóttur að mínum um hina svokölluðu frjálsu samkeppni. Hún hlýtur alltaf að vera leið að markmiði en ekki markmið í sjálfu sér.

Að hvaða markmiði er stefnt með þessu frumvarpi? Markmiðið er að efla almenningssamgöngur í landinu og tryggja forræði sveitarfélaganna þannig að fjármunir sem fara í almenningssamgöngur séu betur nýttir, skynsamlegar og með hagkvæmari hætti fyrir íbúa í landinu. Þetta á ekki að fara inn á verksvið ferðaþjónustunnar og ég ætla að leyfa mér að fullyrða að þetta mun ekki hafa í för með sér neina „hættu“ fyrir hina vinsælu ferðamannastaði. Við höfum vissulega heyrt þessum sjónarmiðum hreyft en ég ætla bara að leyfa mér að fullyrða að þetta er ekki áhyggjuefni.

Varðandi endurgreiðsluna hefur ábendingum þar um einmitt líka verið hreyft í umsögnum frá ferðaþjónustuaðila en það eru einfaldlega engar breytingar á því fyrirkomulagi. Þetta er bara eins og það hefur verið.