140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

fólksflutningar og farmflutningar á landi.

192. mál
[23:01]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að hafa langt mál um þetta frumvarp sem hér hefur verið lagt fram. Ég vil þó segja strax í upphafi að ég er þeirrar skoðunar þegar kemur að því hvernig á að fjármagna almenningssamgöngur að það best gert með skattfé eða útsvari sem er innheimt með eðlilegum hætti. Ég geld varhuga við þeirri hugsun að nota eigi samgöngukerfið sjálft eins og hér er lagt upp með. Ég tel að einmitt sú leið sem er hér til umræðu sé ein af fáum leiðum þar sem er raunverulega hægt að koma við samkeppni.

Hér hefur verið spurt: Til hvers er samkeppni? Það er hárrétt sem hér hefur verið sagt að samkeppni er ekki markmið í sjálfu sér. Það er líka rétt að við ákveðnar aðstæður mun samkeppni ekki skila neinum árangri og getur jafnvel snúist upp í andhverfu sína. Þess vegna verða menn auðvitað að athuga vel sinn gang hvað varðar fyrirkomulag á mörkuðum. Reyndar er það svo að oftast myndast einmitt vandinn gagnvart neytendum þegar hið opinbera veitir einkaleyfi og einkaaðilar geta í slíku skjóli fyrir samkeppni oft á tíðum náð til sín umtalsverðum fjármunum og um það eru mjög mörg dæmi.

Í þessu tilviki hefur það reyndar gerst, eins og bent hefur verið á, að á þessari leið hefur orðið samkeppni sem hefur þegar leitt til þess að verð hefur lækkað. Það hafði hækkað meðal annars vegna þess að leiðin var í ákveðnu skjóli af því að menn töldu að ekki væru samkeppnismöguleikar á henni en síðan sáu menn að það var möguleiki á samkeppni og það hefur strax leitt til lægri fargjalda. Annað sem skiptir líka máli er að samkeppni snýst ekki bara um verð heldur líka þjónustu. Hún snýst um mismunandi þjónustustig og mismunandi útfærslur og eftir því sem við veitum fleiri möguleika fyrir þá sem starfa á þessum markaði, því meiri líkur eru á því að fram komi þjónusta sem hentar farþegunum.

Málið með útboð er það að sá möguleiki á lægra verði sem samkeppni gæti leitt af sér rennur til útboðsgjafans, þess sem stendur fyrir útboðinu og heldur á leyfinu. Það eru þá ekki farþegarnir sem njóta heldur sá sem veitir leyfið. Það er nauðsynlegt að átta sig á muninum á því og samkeppni, þ.e. hvert ávinningurinn rennur. Enn og aftur, ég er þeirrar skoðunar að mun skynsamlegra sé að nota fjármuni sem teknir eru beint úr skattkerfinu og frá útsvarinu til að reka almenningssamgöngur.

Eins og ég segi þá eru ekki svo margar leiðir á Íslandi þar sem svona samkeppni getur í raun og veru þrifist, þar sem fjöldi ferða er nægjanlegur til að slíkt geti gerst. Ég hef alla samúð með þeim vanda sem fylgir því að byggja upp samgöngukerfi á Suðurnesjum fyrir almenningssamgöngur en ég tel ekki að þetta sé hin skynsama leið til að gera það. Það er augljóst að þeir sem hafa gefið álit sitt á þessu máli gjalda varhuga við þessu og til dæmis hefur Samkeppnisstofnun bent á að það hafi verið ánægjuefni að samkeppni hafi verið komin á þessari leið. Sú samkeppni hefur reyndar ekki staðið lengi, aðeins í stuttan tíma. Að mínu mati, og það segi ég enn og aftur, hefði verið heppilegra að fara aðrar leiðir hvað varðar gjaldtöku til að byggja upp almenningssamgöngur.

Um skattheimtu almennt má líka nefna að mér hefur fundist að í vaxandi mæli sé verið að tengja skattheimtu með sérstökum hætti við ákveðna skattstofna og tengja þá um leið skattheimtu við ákveðin verkefni. Ég hef haft þá skoðun og haft hana lengi að það sé hættulegt fyrir okkur og ekki skynsamlegt að gera of mikið af slíku og reyndar sem minnst vegna þess að eðlilegra er að fé renni til ríkissjóðs eða sveitarfélaganna beint og þaðan sé þeim úthlutað til verkefna, en ekki séu búnir til tekjustofnar sem eigi síðan að fara beint til ákveðinna verkefna. Ég held að það sé ekki skynsamlegt og muni valda okkur vaxandi vanda þegar fram líða stundir.

Ég vil að lokum, herra forseti, af því að ég vil ekki lengja þessa umræðu, lesa upp úr áliti meiri hlutans. Hér stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Að mati nokkurra umsagnaraðila eru breytingar í frumvarpinu til þess fallnar að takmarka frelsi í atvinnurekstri og hindra samkeppni, sér í lagi á akstursleiðinni milli Reykjavíkur og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Einnig er það skoðun nokkurra umsagnaraðila að lagabreytingin stuðli að einokun sveitarfélaga eða samtaka sveitarfélaga á fólksflutningum.“

Svar meiri hlutans, með leyfi herra forseta, er að hann vill: „árétta að það er hagur þjóðfélagsins í heild sinni að innviðir og fjármagn sem veitt er til þjónustu við íbúana sé nýtt á sem hagkvæmastan hátt.“

Ég verð að segja eins og er að mér þykir þetta svar mjög almennt, svo ekki sé meira sagt, þessi athugasemd er mjög almenn og gæti átt við um margt. Ég ítreka því þá skoðun mína að ef tilgangur frumvarpsins er að afla tekna fyrir uppbyggingu almannasamgangna á svæðinu sé þetta ekki góð leið. Það er skynsamlegra að fara bara í gegnum skattkerfið.

Herra forseti. Í sjálfu sér hef ég ekki meira um þetta mál að segja í bili en vil þó árétta að lokum að samkeppni er til þess hugsuð að tryggja að þeir sem vilja veita þjónustu fyrir almenning þurfi að gera sitt besta, bjóða upp á sem lægst verð og sem mesta þjónustu. Almenningur hafi val á milli mismunandi þjónustuveitenda og fær þannig hið lága verð og þjónustuna. Í útboði er það útboðsgjafinn, sá sem heldur á réttinum, sem fær afraksturinn. Á samkeppni og útboði er sá munur.