140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

fólksflutningar og farmflutningar á landi.

192. mál
[23:09]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Illuga Gunnarssyni sem fór hér yfir ýmsa þætti sem kalla á, eins og einhverjir hafa sagt, á mikla umræðu. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að markmiðið er ekki samkeppni, markmiðið er væntanlega góð þjónusta. Meira að segja núverandi ríkisstjórn hefur til dæmis verið að styrkja Samkeppniseftirlitið vegna þess að menn trúa því að almenna reglan sé sú að samkeppni ýti undir góða þjónustu. Mér finnst mörg álitaefni vera hér uppi og mér fannst hv. þm. Illugi Gunnarsson fara ágætlega yfir þau, og jafngóð og vel uppbyggð ræða hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur var, verð ég að segja að við getum ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri að þessi nálgun og þær áhyggjur sem fólk hefur af þessum málum kalli í það minnsta á að menn fari eins og eina umferð yfir þetta.

Virðulegi forseti. Ég er ekki að biðja um að það sé gert hér í nótt, ég bið um að menn setjist yfir þetta í nefndinni á morgun í það minnsta og fari aðeins yfir þessa helstu þætti. Ég held að þegar við fáum umsagnir eins og þessar frá Samkeppniseftirlitinu og aðilum sem best þekkja til sé ekki góður bragur á því að renna málinu með miklum hraða í skjóli nætur í gegnum þingið. Við þekkjum þá umræðu sem hefur verið í fjölmiðlum í tengslum við það og ég held að hv. þingmaður og hæstv. ráðherra vilji ekki láta það fréttast um sig að svona sé gengið fram, ég tala nú ekki um út af fyrri ummælum hæstv. ráðherra í gegnum tíðina. Ég ætla því ekki að halda langa ræðu, ræða mín verður 2 mínútur og 30 sekúndur, en bónin er sú að hv. þingnefnd fari betur yfir þetta mál.