140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

fólksflutningar og farmflutningar á landi.

192. mál
[23:11]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna með löngu tali en legg áherslu á að þetta frumvarp hefur fengið mikinn stuðning í samfélaginu af hálfu einstakra sveitarfélaga, af hálfu allra landshlutafélaga sveitarfélaga í landinu, af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga, af hálfu allra þeirra sem komið hafa að skipulagi almenningssamgangna. Þar eru núna að verða þáttaskil.

Almenningssamgöngur voru nær einvörðungu á höfuðborgarsvæðinu að undanteknum afmörkuðum örfáum leiðum. Nú er þetta að breytast. Landshlutasamtök sveitarfélaga, sveitarfélögin innan þeirra vébanda eru að taka höndum saman um að skipuleggja fólksflutninga innan svæða og á milli svæða. Verið er að reyna að samhæfa þjónustu sem áður var dreifð, þjónustu við fatlaða, skólaakstur og almennar samgöngur.

Samkvæmt núgildandi lögum hafa einstök sveitarfélög réttinn til að annast slíka samninga við Vegagerðina sem kemur fram fyrir hönd ríkisins í þessu efni vegna þess að þetta er ekki frítt. Við erum að setja hundruð milljóna í styrkingu á almenningssamgöngum og það skiptir máli hvernig á þessum fjármunum er haldið. Breytingin sem er að verða með þessu frumvarpi er að færa valdið eða heimildina til samninga frá einstökum sveitarfélögum til landshlutasamtaka, það er breytingin.

Þá hafa menn áhyggjur af því að verið sé að fara inn á svið almennrar ferðaþjónustu og það er fullkomlega eðlilegt að ferðaþjónustan og þeir sem gæta hagsmuna hennar hafi áhyggjur af því. Ég vil lýsa því yfir og ég mun ítreka þá yfirlýsingu við atkvæðagreiðslu um málið, að ég hyggst setja á fót nefnd með fulltrúum allra þessara aðila til að skilgreina landamærin á milli almenningssamgangna annars vegar og ferðaþjónustu hins vegar, vegna þess að það er ekki ósk neins og ekki ósk mín að hagsmunir ferðaþjónustunnar verði fyrir borð bornir. Ég held því að allir ættu að geta vel við unað.

Menn hafa staðnæmst nokkuð við leiðina á milli flugstöðvarinnar í Keflavík, Reykjanesbæ, og Reykjavíkur. Það er líka eðlilegt sjónarmið. En ég vek athygli á því að þegar við komum á erlendar flughafnir og tökum flugrútuna, eins og hún er kölluð, eru ekki mörg fyrirtæki sem keppa sín í milli. Það er bara flugrútan. Það er reynt að haga þessum samgöngum á eins hagkvæman máta fyrir ferðalanginn og hugsast getur.

Er verið að hverfa frá því fyrirkomulagi að samkeppnisaðilar geti keppt sín í milli? Nei. Það er hægur vandinn að bjóða þessar leiðir út, að bjóða þessa leið sérstaklega út og það er líka hægt að bjóða hana út og allan pakkann, en við viljum hins vegar ekki svipta með lögum sveitarfélögin eða Samtök sveitarfélaga réttinum til að skipa almenningssamgöngum á þann veg sem Reykvíkingar gera til dæmis með rekstri á Strætó bs. Það þarf að vera heimild til þess í lögum að sjálfsögðu líka.

Öll sveitarfélögin á Suðurnesjum hvetja okkur til að samþykkja þetta frumvarp. Menn eru að aðgreina flugrútuna frá almenningssamgöngum en gera menn sér grein fyrir því hve margir íbúar á Suðurnesjum nýta sér flugrútuna sem almenningssamgöngur, fara til og frá vinnu í Reykjavík og á Suðurnesjum með flugrútunni? Við erum að tala um það hvernig við, í fámennum byggðum Íslands, því að við erum fámenn, bara rúmlega 300 þúsund talsins, getum nýtt þessa fararkosti sem allra best, nýtt samlegðaráhrifin. Eigum við ekki að treysta sveitarfélögunum á svæðunum til að gera það á eins hagkvæman máta og mögulegt er?

Við erum ekki að skerða réttindi eins eða neins með þessu frumvarpi. Við erum færa vald frá einstökum sveitarfélögum til landshlutasamtaka og við erum að stíga skref til að efla almenningssamgöngur í landinu. Það er ástæðan fyrir því að öll sveitarfélögin í landinu, öll landshlutasamtök sveitarfélaga og Samband íslenskra sveitarfélaga styðja þetta frumvarp heils hugar.