140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

vitamál.

345. mál
[23:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vitamál, nr. 132/1999, með síðari breytingum.

Frumvarpið felur í sér hækkun vitagjalds í samræmi við verðlagsbreytingar frá síðustu hækkun gjaldsins, um 5% í 136,62 kr., og að lágmarksgjald verði einnig hækkað um 5%, þ.e. í 5.145 kr. úr 4.900 kr. Gjaldtakan snertir skip sem sigla við strendur landsins og hafa viðkomu í höfnum. Gjaldtökunni er ætlað að standa straum af kostnaði við rekstur og framkvæmdir á vegum Siglingastofnunar Íslands.

Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að gjaldskrár séu uppfærðar reglulega í samræmi við verðlagsþróun. Vitagjald var síðast hækkað árið 2009 en þá hafði það ekki hækkað í sjö ár.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir þetta álit skrifa auk mín, hv. þingmenn Ólína Þorvarðardóttir, Þuríður Backman, Mörður Árnason, Róbert Marshall og Atli Gíslason.