140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

381. mál
[23:31]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér er komið á dagskrá frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, þar sem lagt er til að gildistöku ákvæðis um hljóðritanir ríkisstjórnarfunda verði frestað. Þegar þessi lög voru samþykkt fór ákvæði inn í lögin sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Allir fundir ríkisstjórnarinnar skulu hljóðritaðir og afrit geymt í vörslu Þjóðskjalasafns. Skulu hljóðritanir þessar gerðar opinberar að 30 árum liðnum frá fundi.“

Þetta ákvæði átti að taka gildi nú 1. janúar 2012. Vegna fjölda ábendinga sem bárust nefndinni hefur komið í ljós að þetta er óframkvæmanlegt vegna þess að þetta lagaákvæði skilur eftir afar margar spurningar hvað það varðar að ríkisstjórnarfundir skuli hljóðritaðir. Það 30 ára þagnarákvæði sem sett var inn í lögin heldur ekki og til dæmis er í greinargerð með frumvarpinu minnisblað frá Róberti Spanó lögfræðingi þar sem farið er yfir þessi álitaefni.

Ég hef verið að benda á að lagasetning hér á Alþingi verður að vera vönduð. Þetta mál er einmitt dæmi um mál sem verður að lagaambögu þegar til framkvæmda á að koma, vegna þess að vinnan sem farið hefur fram í sumar og haust, eftir að lögin voru samþykkt, á að gerast í meðförum Alþingis þegar lagafrumvörp af þessu tagi koma fram.

Þetta er mjög ítarlegt álit sem Róbert Spanó leggur fram og er fylgiskjal I í frumvarpinu. Ég hvet þá sem hafa áhuga á þessu máli til að lesa álit hans, en þetta snýr að því að þegar ríkisstjórnarfundir eru teknir upp er til dæmis ekki lagastoð fyrir því að ekki megi komast í gögnin, t.d. eins og það að ríkisstjórnir geti farið aftur í tímann og hlustað á það sem gerist á fundum hjá fyrri ríkisstjórn.

Mín rök fyrir því að fella þessa lagagrein um hljóðupptökur niður, og breytingartillagan sem snýr að því, eru þau að ég tel að á meðan ríkisstjórnarfundir eru hljóðritaðir og ekki er búið koma á þessum 30 ára fresti færist stjórn ríkisins annað, þ.e. að þær ákvarðanir sem skipta máli og varða almannahag og almannahagsmuni hér í landi verði ekki teknar í Stjórnarráðinu. Það er mjög varhugavert.

Tökum dæmi af þeirri ríkisstjórn sem situr nú. Innan hennar er mikið ósætti sem hér er opinberað nánast á hverjum degi. Þess heldur þarf þetta að falla niður, menn verða að geta útkljáð við ríkisstjórnarborðið þau mál sem til umræðu eru án þess að eiga það á hættu að hægt sé að komast í þau gögn og þær hljóðupptökur.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja mál mitt hér enda klukkan að ganga tólf á miðnætti þann 16. desember. Hér er lögð fram breytingartillaga við þetta mál. Ég tel það mikil mistök að fresta gildistöku þessa ákvæðis, eins og lagt er til í frumvarpinu, til 1. nóvember árið 2012, vegna þess að ríkisstjórnin er að vinna sér tíma. Það eru 497 dagar fram að kosningum. Við vonumst til þess á hverjum degi að ríkisstjórnin fari frá. Þarna er hæglega hægt að snúa því þannig upp að ríkisstjórnin sé að vinna sér tíma til þess að þurfa ekki að uppfylla þessa lagaskyldu og það á að skoða málið á milli. Sú greinargerð sem fylgir hér með, sem fylgiskjal I, er fullnægjandi að mínu mati frá lögmanninum Róbert Spanó, og því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að fella þetta ákvæði alveg út í stað þess að vera með þessi frestunarákvæði.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.