140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

381. mál
[23:37]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki frekar en aðrir ræðumenn hér í kvöld að lengja þessa umræðu mikið. Það eru þó örfá atriði sem ég vildi koma að, meðal annars til að skýra það hvers vegna ég var ekki meðal flutningsmanna þessa máls. Það var flutt af meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar en ekki af nefndinni sem slíkri vegna þess að ekki var samstaða um það í nefndinni.

Ég taldi rétt að vera ekki meðal flutningsmanna vegna þess að það ákvæði sem hér um ræðir, þetta tiltekna ákvæði laganna sem hér er ætlunin að fresta, hefur valdið mér töluvert miklum umþenkingum og efasemdum. Ég vildi einfaldlega halda þeim möguleika opnum að styðja breytingartillögur eða greiða atkvæði gegn málinu eftir því sem verða vildi, eftir því hvernig umræða um þetta þróaðist.

Ég ætla að rekja í örfáum orðum forsögu þessa máls sem ég held að sé nauðsynlegt að gera samhengisins vegna. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir kom reyndar aðeins inn á það, en ég vona að ég sé ekki að endurtaka mikið af því sem hún sagði, ég missti af fyrir hluta ræðunnar.

Við þekkjum það auðvitað að stjórnarráðsfrumvarpið, frumvarp til laga um breytingar á Stjórnarráði Íslands, var til umræðu hér í september og margir þættir þess máls voru umdeildir, og ætla ég ekki að fara nánar út í það. Þegar kom að því að þáverandi allsherjarnefnd afgreiddi það mál frá sér reyndist stuðningur við málið nokkuð dræmur innan þeirrar nefndar, frumvarpið í heild. Ég held að ég sé ekki að ljóstra neinu upp vegna þess að það kom fram, bæði hér í umræðum í þinginu og í fjölmiðlum, að tveir nefndarmenn, hv. þingmenn Þór Saari og Þráinn Bertelsson, lýstu því yfir að það væri skilyrði þeirra fyrir stuðningi við frumvarpið í allsherjarnefnd að þessu ákvæði, hljóðupptökuákvæðinu, yrði bætt inn í frumvarpið, því ekkert ákvæði af þessum toga var í upphaflegu frumvarpi hæstv. forsætisráðherra.

Þetta kom sem sagt inn á lokastigi við málsmeðferð í allsherjarnefnd í september sem eins konar málamiðlun af hálfu meiri hluta nefndarinnar gagnvart þessum tveimur hv. þingmönnum, Þór Saari og Þráni Bertelssyni, sem lýstu því yfir í fjölmiðlum að það væri skilyrði þeirra fyrir stuðningi við málið að ríkisstjórnarfundir yrðu teknir upp á band — allir. Það var skilyrði af þeirra hálfu. Aðrir nefndarmenn, margir hverjir, höfðu efasemdir um það mál, en þetta var sem sagt niðurstaða meiri hlutans að taka þetta inn í til að tryggja að málið yrði afgreitt úr allsherjarnefnd, ella var óvíst um úrslit þess á þeim vettvangi. Reyndar var á einum fundi tillögu formanns um að afgreiða málið úr nefndinni hafnað af meiri hluta nefndarinnar. Þannig að þetta á sér nú sínar skýringar og sína forsögu.

Kannski vegna þess að málið bar að með þessum hætti fékk málið ekki viðhlítandi skoðun áður en það var afgreitt. Það var ekki skoðað nægilega vel, hvorki út frá lögfræðilegum né tæknilegum forsendum. Á það var bent í málsmeðferð í nefndinni og í þinginu, meðal annars af þeim sem hér stendur, að þarna væri verið að samþykkja mjög róttæka breytingu á fyrirkomulagi laga um Stjórnarráðið án viðhlítandi skoðunar, en meiri hluti nefndarinnar og meiri hluti þingsins lét sig það engu varða, heldur kláraði málið samt sem áður með þessum hætti. (VigH: Rétt.) Það var meðvituð og upplýst ákvörðun af hálfu meiri hluta þessa þings, gegn ráðum mínum og fleiri manna hér í þinginu, að afgreiða þetta mál í þessu formi þrátt fyrir að bent væri á að á því kynnu að vera margvíslegir gallar og því mundu fylgja erfiðleikar.

Það var reyndar ákveðið af hálfu meiri hluta nefndarinnar að láta gildistöku þessa ákvæðis bíða til áramóta til að fá ráðrúm til að undirbúa framkvæmd hljóðupptakanna í stað þess að ákvæðið tæki gildi eins og önnur ákvæði frumvarpsins, þannig að það má segja að þegar hafi orðið þriggja mánaða frestur á gildistöku þessa ákvæðis. Þessi þriggja mánaða frestur hefur nýst að því leyti að forsætisráðuneytið hefur fengið í hendur álitsgerðir frá bæði Róberti Spanó, prófessor við Háskóla Íslands, og Gunnari Helga Kristinssyni, prófessor í stjórnmálafræði, sem báðir finna mjög marga annmarka á þessu ákvæði. Það gefur auðvitað tilefni til frekari skoðunar.

Ég tek undir það með hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að eðlilegra væri að fella þetta ákvæði bara burt úr frumvarpinu, úr lögunum, bara fella það brott. Sú frestun sem hér um ræðir er hálfeinkennileg í ljósi þess að ríkisstjórnin og ríkisstjórnarmeirihlutinn á þingi, með liðsinni þingmanna Hreyfingarinnar, hefur áður staðið að því að samþykkja þetta vitandi að það gætu verið á þessu gallar. Hugsanlega leiðir frestunin til þess að einhverjar leiðir finnast til þess að gera þetta þannig úr garði að það standist. Hugsanlega leiðir endurskoðunin líka til þess að menn komast einfaldlega að þeirri niðurstöðu að það beri að fella þetta brott. Það verður tíminn að leiða í ljós.

Hvað sem því líður er ekki hægt að láta þetta mál fara hér í gegn öðruvísi en að koma þessum athugasemdum á framfæri. Oft er haft á orði að menn mættu vanda sig meira við lagasetningu hér á þingi og þetta er kannski einmitt sýnikennsla í því hvernig standa á að lagasetningu á Alþingi Íslendinga.