140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

381. mál
[23:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður gleymdi að minnast á þá staðreynd að hér gerðist það sem er tiltölulega sjaldgæft að hv. þingmaður og hæstv. forsætisráðherra eru í reynd sammála. Hv. þingmaður rifjaði það upp að hann var hér löngum stundum að vara við því að þetta ákvæði yrði samþykkt, hann vildi láta skoða það meira. Það er nákvæmlega það sem hæstv. forsætisráðherra sagði á sínum tíma að þyrfti að gera, það er það sem er að gerast hér.

Ég vil hins vegar segja það algjörlega skýrt að ég sé ekkert að því að með þessum hætti verði fest til framtíðar og leyft að opna og hlusta á eftir 30 ár þær umræður sem kunna að fara fram í ríkisstjórn. Ég sé ekkert á móti því. Það er bara í anda þeirrar tæru og gagnsæju vinnubragða sem ég tel að við eigum, ég og hv. þm. Birgir Ármannsson, að taka höndum saman um að ástunda í framtíðinni.