140. löggjafarþing — 38. fundur,  17. des. 2011.

raforkulög.

305. mál
[00:35]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér sjáum við eitt dæmi um jólaboðskap ríkisstjórnarinnar, skattahækkanir á raforkueftirlitsgjaldi þar sem gert er ráð fyrir því að þetta gjald verði hækkað um 100%. Það er alveg rétt sem kemur fram í máli hv. formanns atvinnuveganefndar, þetta eru ekki stórar tölur en hækkunin er úr 50 milljónum í 98 millj. kr. Hlutfallstalan er engu að síður sláandi, nærri því 100% hækkun.

Það má kannski segja að enginn ágreiningur sé um það að við viljum hafa hér öflugt raforkueftirlit af ýmsum ástæðum og vil ég þá vekja athygli á því sem kemur fram í nefndaráliti okkar að þessu raforkueftirliti er sinnt í dag með þrenns konar hætti. Mannvirkjastofnun sinnir rafmagnseftirliti og kemur fram í umsögnum sem við höfum undir höndum og vekjum við athygli á því í nefndarálitinu að gjaldið sem raforkufyrirtækin greiða til Mannvirkjastofnunar nemur um 180 millj. kr. á ári en hins vegar runnu ekki nema 60% gjaldsins til eiginlegs rafmagnseftirlits á þessu ári. Þá hefur Samkeppniseftirlitið líka eftirlit með samkeppnisþætti þessarar starfsemi og síðan kemur sem sagt Orkustofnun til viðbótar. Það hefði verið eðlilegt að byrja á því að samhæfa þessa starfsemi til að koma í veg fyrir þörfina á því að hækka þessa gjaldtöku um 100%.

Stofn þessarar gjaldtöku er raforkuframleiðslan í landinu með einum eða öðrum hætti. Nú hefur Landsvirkjun t.d. kynnt stefnu sína sem gerir ráð fyrir verulegri aukningu á raforkuframleiðslu þannig að það má ætla að tekjur af rafmagnseftirlitsgjaldinu muni aukast ef ríkisstjórninni tekst ekki að koma í veg fyrir allar þær framkvæmdir sem Landsvirkjun stefnir að. Ég vek athygli á því í þessu sambandi að eftir að Kárahnjúkavirkjun var tekin í notkun á árinu 2007 var sú ákvörðun tekin að lækka raforkueftirlitsgjaldið í samræmi við auknar heildartekjur sem fengust af því með aukinni rafmagnsframleiðslu.

Þegar allt þetta er tekið saman er það skoðun minni hluta atvinnuveganefndar að ekki sé tilefni til tvöföldunar raforkueftirlitsskattsins við þessar aðstæður. Þetta er skattur, þetta er ekki þjónustugjald, það kom skýrt fram í vinnu nefndarinnar. Það hefði þess vegna verið skynsamlegra að fara betur yfir verkaskiptingu raforkueftirlitsins sem nú er framkvæmt af þremur stofnunum eins og ég gerð grein fyrir og reyna með því að tryggja aukna virkni án þess að það leiddi til svo mikillar hækkunar á gjaldstofninum.

Undir þetta nefndarálit skrifa auk mín hv. þingmenn Sigurður Ingi Jóhannsson og Jón Gunnarsson.