140. löggjafarþing — 38. fundur,  17. des. 2011.

almannatryggingar o.fl.

380. mál
[00:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Það liggur við að maður taki undir með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að erfitt sé að ræða málin inn í nóttina, sérstaklega ef manni eru ætlaðar svo sem eins og tvær og hálf mínúta í bandorm sem snertir almannatryggingar og atvinnuleysistryggingar eins og það þingskjal sem hér er (Forseti hringir.) til umræðu.

(Forseti (ÁRJ): Vill hv. þingmaður að málið verði tekið fyrir á morgun? Forseti er tilbúinn að verða við því. Það er mögulegt.)

Nei, það vil ég ekki, frú forseti. Ég leyfði mér að gagnrýna að settar væru of þröngar skorður við framsögu málsins, það var allt og sumt. Ég var ekki að óska eftir því að fyrirtöku þess yrði frestað.

Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta velferðarnefndar sem er að finna á þskj. 549. Hér er um að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um málefni aldraðra, með síðari breytingum. Þetta frumvarp er í þremur köflum, auk IV. kafla sem er gildistökuákvæði.

Í fyrsta lagi er breyting á lögum um almannatryggingar þar sem lagt er til að frítekjumark lífeyrisþega á árinu 2012 verði það sama og á árinu 2011 og er það í samræmi við forsendur fjárlaga fyrir árið 2012.

Í öðru lagi að allar bætur almannatrygginga, meðlagsgreiðslur og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, hækki um 3,5% frá 1. janúar 2012. Er það sömuleiðis í samræmi við fjárlög ársins 2012.

Fyrir nefndinni voru gerðar athugasemdir við að hækkun bóta væri ekki til samræmis við hækkun lægstu launa í kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins. Nefndin kynnti sér af því tilefni sérstaklega svar velferðarráðherra við fyrirspurn hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur um þróun atvinnuleysisbóta, lágmarkslauna og lágmarksbóta öryrkja og vísa ég til þskj. 494, mál nr. 277.

Nefndin leggur áherslu á að endurskoðun almannatryggingakerfisins sem nú stendur yfir verði flýtt eins og unnt er til að tryggja réttlæti og jafnræði í bótakerfum hins opinbera, en í svörum við fyrirspurn hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur kemur meðal annars fram að bætur einhleyps öryrkja hafa hækkað meira undanfarin tíu ár en lágmarkslaun. Samkvæmt upplýsingum velferðarráðuneytis hafa bætur öryrkja sem er í sambúð eða giftur einnig hækkað meira en lágmarkslaun undanfarin tíu ár.

Í II. kafla eru lagðar til breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar í samræmi við athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA um samlagningu starfstímabila umsækjanda um atvinnuleysisbætur þannig að hvert einstakt tilvik verði metið fyrir sig. Sambærilegt ákvæði var lögfest vegna fæðingarorlofs á 139. þingi.

Þá eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á ákvæði er varðar styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna þátttöku í starfs- og námstengdu vinnumarkaðsúrræðum, en auk þess leggur nefndin til viðbót við þá grein þannig að þar bætist við heimild til að veita sérstaka styrki vegna kostnaðar sem atvinnuleitendur verða fyrir þegar þeir ráða sig til starfa fjarri heimili sem og við starfs- eða námstengd vinnumarkaðsúrræði. Gert er ráð fyrir að styrkirnir verði tímabundnir og hámark sett á fjárhæð þeirra.

Þá er ég komin, frú forseti, að umdeildasta atriði þessa frumvarps, en í því var gert ráð fyrir að hlé skyldi gert á greiðslum atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði, en síðan tækju við greiðslur í sex mánuði eftir það. Vegna efnahagshrunsins og aukins langtímaatvinnuleysis var bótaréttur lengdur tímabundið í 48 mánuði út árið 2011. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að þessi bótaréttur yrði lengdur í 48 mánuði út árið 2012, þó þannig eins og ég nefndi, að gert yrði þriggja mánaða hlé. Í stuttu máli leggur meiri hluti nefndarinnar til að þetta ákvæði falli brott, en í stað þess verði ákvæði til bráðabirgða X í lögunum framlengt óbreytt, enda hafi viðkomandi atvinnuleitandi í fyrsta skipti fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá og með 1. mars 2008 eða síðar. Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður vegna þessara breytinga verði um 750 millj. kr. á árinu 2012. Er það mat velferðarráðuneytisins að sú fjárhæð rúmist innan fjárlaga ársins.

Ég vil vekja athygli, frú forseti, á því að í dag var kynnt ákvörðun ríkisstjórnar, sveitarfélaga og Samtaka aðila vinnumarkaðarins um að standa saman að fjölbreyttum og öflugum aðgerðum í vinnumarkaðsmálum sem verður ráðist í strax í byrjun næsta árs og munu aðgerðir í þágu langtíma atvinnulausra hafa forgang í þessu tímabundna átaki. Hér er um að ræða 1.500 störf og munu sveitarfélögin skapa um helming þeirra starfa en fyrirtæki á almennum markaði hinn helminginn. Aðgerðir í þágu langtíma atvinnulausra munu hafa forgang í þessu tímabundna átaki. Áætlað er að aðgerðirnar verði til þess að lækka atvinnuleysisstigið um 0,7% á næsta ári.

Meiri hlutinn bindur vonir við góðan árangur þessa átaks, ekki síst með hliðsjón af því að með átakinu Nám er vinnandi vegur sem ráðist í var fyrr á þessu ári, tókst að tryggja öllu ungu fólki að 25 ára aldri sem þess óskaði námsvist í framhaldsskólum landsins, auk þess sem um þúsund atvinnuleitendur tóku þátt í námstengdum úrræðum.

Loks vil ég geta um framlengingu á tveimur ákvæðum, annars vegar að framlengja ákvæði um útreikning greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum sem er að finna í frumvarpinu og hins vegar leggur meiri hluti nefndarinnar til framlengingu á ákvæði í 28. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, þannig að kostnaður sem fellur til vegna sérstakrar liðveislu á vinnustað og verndaðrar vinnu á árinu 2012 skiptist á milli ríkis og sveitarfélaga í samræmi við samkomulag þeirra á milli sem gert var á þessu ári og hefði ella runnið út núna um næstkomandi áramót.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.