140. löggjafarþing — 38. fundur,  17. des. 2011.

almannatryggingar o.fl.

380. mál
[00:54]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er gott að heyra að það eru ekki bara EES-gerðir sem hafa forgang í þinginu, heldur fái menn að klára að ræða mál, sem kannski einhverjir mundu telja brýn, og varða bótakerfið og stöðu atvinnulausra og málefni aldraðra. Forgangsröðun hjá fólki getur náttúrlega verið mismunandi. Það virtist vera svo að rafrænar undirskriftir og kröfur um visthönnun ættu að skipta meira máli en að við ræddum stöðu þeirra sem minna mega sín í samfélaginu.

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti minni hluta velferðarnefndar. Birgitta Jónsdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Ég geri ekki athugasemdir við þær breytingar sem meiri hluti velferðarnefndar leggur til við frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um málefni aldraðra, sem er einmitt sá hópur sem þeim sem vilja kenna sig við norræna velferð ætti að vera annt um.

Þær athugasemdir sem komu fram fyrir nefndina sneru einna helst að því að ríkisstjórnin stæði enn á ný ötullega að því að svíkja gefin loforð. Ég tek undir þá skoðun aðila vinnumarkaðarins að það sé verulega ámælisvert að telja hækkun lægstu bóta hliðstæða hækkun þeirra sem eru með laun yfir 300 þús. kr. Þetta er enn eitt dæmið um það hvernig stjórnvöld hafa ítrekað lofað upp í ermina á sér og svíkja svo þessi gefnu loforð. (Gripið fram í: Svik og svik og svik.)

Það er alveg ljóst að stjórnvöld reiknuðu ekki kostnað við kjarasamninga og viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þegar samningarnir voru undirritaðir. Þetta kemur fram í áliti meiri hluta velferðarnefndar um fjárlagafrumvarpið þar sem segir, með leyfi forseta, að samkvæmt „upplýsingum frá velferðarráðuneytinu reyndist ekki unnt að miða við þá lágmarkstölu þar sem hækkun hefði þá numið um 6,8% og útgjöld ríkisins orðið langt umfram áætlun“. Þetta kom einnig fram á fundum fjárlaganefndar sem ég sat um það leyti þegar kjarasamningar voru undirritaðir í vor þar sem fjárlaganefndarmenn óskuðu einmitt eftir upplýsingum um hvað þessi viljayfirlýsing mundi kosta, hvað þær hækkanir sem þarna var verið að undirrita mundu kosta ríkissjóð. Engar upplýsingar, engir útreikningar lágu fyrir.

Ég tel að það eigi náttúrlega að vera þannig að þegar maður gefur loforð á maður að standa við það. (Gripið fram í: Það er rétt.) Því leggst ég gegn samþykkt þessarar breytingar sem hér er lögð til og legg til að bæturnar hækki um 6,8% í samræmi við gefin loforð ríkisstjórnarinnar. (Gripið fram í.) Hér eru því tvær breytingartillögur. Í fyrsta lagi að 1. gr. frumvarpsins falli hreinlega á brott og að í stað hlutfallstölunnar 3,5% í 2. gr. komi: 6,8%.

Þar sem ég tel mikilvægt, virðulegur forseti, að staðið sé við gefin loforð, er ég hætt að tala hér í kvöld.