140. löggjafarþing — 38. fundur,  17. des. 2011.

fjarskiptasjóður.

364. mál
[00:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskiptasjóð, nr. 132/2005, með síðari breytingum, frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.

Lög um fjarskiptasjóð falla að óbreyttu úr gildi um næstu áramót. Er megintilgangur frumvarpsins að tryggja áframhaldandi starfsemi sjóðsins. Lagt er til að gildistími laganna verði framlengdur um fimm ár og einnig eru lagðar til nokkrar breytingar er lúta að fyrirkomulagi á starfsemi sjóðsins og stjórnar hans, þar á meðal tillaga um að fækka stjórnarmönnum fjarskiptasjóðs úr fimm í þrjá.

Þá er lagt til að gjald sem innheimt er við úthlutun tíðnisviða vegna fjarskiptaþjónustu samkvæmt lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, renni eftirleiðis í sjóðinn í stað þess að renna í ríkissjóð.

Það er álit nefndarinnar, eins og ítarlega er gert grein fyrir í nefndaráliti, að afar mikilvægt sé að fjarskiptasjóður haldi áfram. Þess vegna er þetta frumvarp lagt fram. Ég ætla ekki að lengja mál mitt heldur vísa í greinargerð með frumvarpinu.

Undir þetta álit skrifa auk mín, hv. þingmenn Ólína Þorvarðardóttir, Þuríður Backman, Mörður Árnason, Róbert Marshall og Ásmundur Einar Daðason. Hef ég þá lokið máli mínu.