140. löggjafarþing — 38. fundur,  17. des. 2011.

skráning og mat fasteigna.

361. mál
[01:04]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að gera grein fyrir fyrirvara mínum sem er ekki flókinn eða mikill að vöxtum við þetta frumvarp. Hér er verið að breyta lögum um skráningu og mat fasteigna í þá veru að hækka gjald fyrir svokallaðar vélrænar fyrirspurnir úr þinglýsingarbók úr 630 kr. í 850 kr. Þetta gjald hefur verið óbreytt frá árinu 2009 en er nú hækkað í einu lagi um 35% á sama tíma og vísitala neysluverðs hefur einungis hækkað um 15%. Ég tel að í meðferð þessa máls hafi ekki verið færð fram sannfærandi rök fyrir því að þörf sé á svo mikilli hækkun og hefði talið að eðlilegra að verðlagi hefði verið fylgt í þessu efni.