140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

fólksflutningar og farmflutningar á landi.

192. mál
[11:08]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða mikilvægt mál fyrir almenningssamgöngur í landinu. Hins vegar blandast ferðaþjónustan og leiðir til og frá ferðamannastöðum inn í þetta mál og það er mjög mikilvægt að við tryggjum að ekki sé verið að veita af hálfu opinberra aðila einkaleyfi á leiðum sem færa mönnum, þá einstaka fyrirtækjum, hundruð milljóna í tekjur á einstaka leiðum. Þess vegna fagna ég því að hæstv. innanríkisráðherra ætli að flýta þeirri vinnu að setja á laggirnar starfshóp þannig að landamærin þarna á milli verði aðskilin, skýr landamæri verði sett þarna á milli. Ég skil það svo að nefndinni eða starfshópnum sé ætlað að vinna hratt áður en útboð á einkaleyfum tengdum ferðamannastöðum fari fram þannig að engu verði raskað til dæmis á leiðinni Keflavíkurflugvöllur – Reykjavík fyrr en þessi starfshópur hefur komist að niðurstöðu.

Ég tel hins vegar mikilvægt til að skerpa á þessum skilningi að óska eftir því að málið fari til nefndar milli 2. og 3. umr. þannig að menn komi sér saman um það í hvaða farveg þetta mál á að fara þannig að sem mest sátt náist í því áður en það verður endanlega afgreitt.