140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

fólksflutningar og farmflutningar á landi.

192. mál
[11:11]
Horfa

Atli Gíslason (U) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir atkvæðaskýringu hæstv. innanríkisráðherra og formanns umhverfis- og samgöngunefndar, hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur. Ein regla á að gilda um allt land og það þarf að aðskilja almenningssamgöngur og ferðaþjónustu. Ég geri mér fulla grein fyrir því. Reynslan er hins vegar sú þar sem almenningssamgöngur hafa verið einkavæddar, t.d. í Bretlandi, að menn hafa tekið feitustu bitana út úr, hinir drabbast niður, aðrar almenningssamgöngur, þannig að það er mjög mikilvægt að líta á þetta heildstætt út frá landsfjórðungunum.

Ég verð að segja líka að þetta kerfi á Reykjanesi hefur gengið afar vel og íbúar á svæðinu eru einkar ánægðir með það. Það þarf samt að fara fram endurskoðun og aðskilja ferðaþjónustu og almenningssamgöngur. Almenningssamgöngur eru eitt brýnasta verkefni sem blasir við okkur í dag, m.a. vegna hækkaðs orkuverðs.