140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

eftirlit með skipum.

347. mál
[11:15]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar að benda þingheimi á að hér er enn einn vítahringurinn í gangi um vísitöluhækkanir og gjaldskrárhækkanir hins opinbera. Vegna hækkunar á neysluverðsvísitölu hækkar ríkisstjórnin gjaldskrár sem hækkar neysluverðsvísitölu sem hækkar skuldir heimilanna sem tekur til baka þær vaxtabætur sem sami ríkissjóður greiðir almenningi. Þetta er einhvers konar vítahringur og leikrit sem kominn er tími til að benda á. Þetta er séríslensk hagstjórn á heimsmælikvarða og þekkist hvergi í venjulegum heimi fólks.

Mig langar einfaldlega að benda þingheimi á hvað hann gerir með því að viðhalda þessu. Hann hækkar skuldir heimilanna samtals um 4–5 milljarða vegna þessara fjárlaga sem eru til komin vegna þessara gjaldskrárhækkana. Þetta er eilífur vítahringur sem fyrir löngu er kominn tími til að við komum okkur út úr.