140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

381. mál
[11:30]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér er verið að höggva í frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands og koma í veg fyrir að það sem fram fer á ríkisstjórnarfundum fái nokkurn tímann að koma fyrir augu almennings. Fjórar skýrslur voru hafðar til hliðsjónar, þar á meðal skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis, þegar allsherjarnefnd fór yfir þetta mál. Í þeim öllum kom fram að nauðsynlegt væri að hægt væri að rekja með einhverjum hætti ákvarðanatöku sem fram fer á ríkisstjórnarfundum.

Þegar þetta frumvarp kláraðist óskaði forsætisráðuneytið eftir því að fá þriggja mánaða frest til að koma lagi á tæknibúnað í forsætisráðuneytinu fyrir ríkisstjórnarfundina. Sá frestur var veittur. Nú er óskað eftir tíu mánaða fresti til að athuga með framgang þessa máls. Hér er um að ræða lagasniðgöngu af hálfu forsætisráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar. Þau vilja ekki opið og gagnsætt samfélag á Íslandi. Til þess hafa stjórnarflokkarnir (Gripið fram í: … ekki að ræða …) líka stuðning annarra flokka á þingi. Þetta er dapurlegur vitnisburður um meðferð á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þar sem fjórflokkurinn lætur sína hagsmuni ganga fyrir hagsmunum (Forseti hringir.) almennings í landinu.