140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

381. mál
[11:37]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það vita auðvitað allir hvernig þetta mál allt er til komið. Þegar ríkisstjórnin var komin í vandræði með að afgreiða stjórnarráðsfrumvarpið á sínum tíma og gat ekki náð málinu út úr hv. allsherjarnefnd, m.a. vegna andstöðu stjórnarliða, gerðist það að ríkisstjórnin settist á rökstóla og komst að þeirri niðurstöðu með þeim sem voru að móast við í nefndinni að hægt væri að skapa nægilega samstöðu um að ná málinu út úr nefndinni með því að setja inn þetta umdeilda ákvæði.

Nú hefur hæstv. ríkisstjórn hins vegar komist að raun um að hún getur ekki framkvæmt þetta, hún getur ekki efnt loforðið. Hvað er þá farið að gera? Þá er loforðið efnt með þessum hætti, (Gripið fram í.) með eins konar afborgunarskilmálum. Þetta er efnd loforða með raðgreiðslum því að það á ekki að efna það að fullu heldur aðeins síðar. Þetta er hugsunin. Síðan geta menn velt því fyrir sér hvort fróðlegt væri að heyra eitthvað af því sem hefur gerst á fundum ríkisstjórnarinnar. Mér finnst ég eiginlega vera búinn að heyra nóg frá þessari ríkisstjórn. [Hlátur í þingsal.]