140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

355. mál
[11:44]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Með þessu frumvarpi er tryggt að eftirlitsnefnd um sérstaka skuldaaðlögun geti starfað áfram út næsta ár. Það er mjög mikilvægt. Það hefur orðið mikill árangur í úrvinnslu skuldamála frá því að lögin um aðgerðir í þágu einstaklinga og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins voru sett haustið 2009. Það er mikilvægt að fylgja áfram eftir starfinu í fjármálafyrirtækjunum og hjá lífeyrissjóðum, Íbúðalánasjóði og öðrum sem eru að vinna að meðferð erfiðra skuldamála. Eftirlitsnefndin hefur gegnt gríðarlega mikilvægu hlutverki og það er fagnaðarefni hversu vel hefur tekist til að viðhalda þeirri þverpólitísku samstöðu sem varð um upphaf þessarar vegferðar og ég fagna því að velferðarnefnd hefur áfram unnið af heilum hug í að fylgja þessu verkefni eftir þvert á flokka.