140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

almannatryggingar o.fl.

380. mál
[12:00]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Nú greiðum við atkvæði um 380. mál þingsins, m.a. um lengd atvinnuleysisbótatímabils. Hér er gerð tillaga um að greiða atvinnuleysisbætur í allt að fjögur ár, út árið 2012. Þótt tekist hafi að draga úr atvinnuleysi og að horfur fyrir næsta ár séu betri veldur það vissulega áhyggjum hversu margir hafa verið lengi, jafnvel lengur en þrjú ár, á atvinnuleysisbótum. Það eru yfir 2 þús. manns.

Ríkisstjórnin hefur nú náð samkomulagi við sveitarfélögin í landinu og aðila vinnumarkaðarins um að hrinda af stað strax í upphafi næsta árs átakinu Til vinnu og skapa með því 1.500 ný störf. Verður átakinu sérstaklega beint að þeim sem lengst hafa verið án vinnu.

Með þessu átaki, frú forseti, og þeirri samstöðu sem þar birtist er nú unnt að framlengja rétt til bóta í atvinnuleysi í fjögur ár út árið 2012, og það án þess að menn verði skikkaðir til að vera án bóta í þrjá mánuði eins og upphaflega var reiknað með. Ég fagna því sérstaklega og hvet hv. þingmenn til að styðja það.