140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

almannatryggingar o.fl.

380. mál
[12:10]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér er verið að framlengja möguleika fólks til að fá atvinnuleysisbætur á næsta ári. Eins og hv. formaður velferðarnefndar, Álfheiður Ingadóttir, hefur farið í gegnum hefur verið undirritað ákveðið samkomulag milli aðila vinnumarkaðarins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um að reyna að koma sérstaklega til móts við þá sem eru langtímaatvinnulausir. Það er vel, það er gott. Hins vegar verð ég að segja að ég hef töluverðar áhyggjur af því að staðan skuli vera þannig að það er einn ráðgjafi á hverja 500–600 atvinnulausa hjá Vinnumálastofnun. Það skiptir verulegu máli að við reynum að koma ástandinu hér meira í sama horf og þekkist annars staðar á Norðurlöndunum þar sem er nær því að vera einn ráðgjafi á hverja 60–70 atvinnulausa til að það sé raunverulega hægt að taka á vanda atvinnulausra, koma þeim í virkniúrræði og styðja við þá sem eru langtímaatvinnulausir. (Forseti hringir.) Ekkert er verra en að búa við atvinnuleysi.