140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

efling tónlistarnáms.

383. mál
[12:15]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Lagasetning þessi er mikið fagnaðarefni. Hérna er um að ræða frumvarp til laga um breytingar á lögum og byggt á langþráðu samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms. Nefndin leggur sérstaklega áherslu á að það þurfi að tryggja mat og eftirlit með því að með framlagi ríkisins sé markmiði samkomulagsins náð, þ.e. að efla tónlistarnám og gera nemendum kleift að stunda hljóðfæranám á framhaldsskólastigi og söngnám á mið- og framhaldsskólastigi óháð búsetu. Það að þessa löggjöf hafi vantað hefur lengi þvælst fyrir námi nemenda í tónlistarnámi og búseta hefur skarast við ástundun o.s.frv. þannig að það er mjög ánægjulegt að nefndin hafi komist að niðurstöðu um að samþykkja frumvarpið óbreytt. Á bak við það standa allir nefndarmenn allra flokkanna sem ég fagna mjög og ég held að það verði tónlistarnámi til framdráttar að þessar lagabreytingar eigi sér stað.