140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

efling tónlistarnáms.

383. mál
[12:17]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér er verið að ganga frá samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga vegna eflingar tónlistarnáms. Reyndar er verið að breyta ýmsum öðrum lögum. Þetta er bland í poka varðandi samskipti ríkis og sveitarfélaga.

Þetta mál er í eðli sínu mjög gott en þó er sá hængur á að eftir að samkomulagið var gert hefur komið í ljós að nemendafjöldinn er mun meiri en ráð var fyrir gert og sömuleiðis hafa laun kennaranna verið hærri. Það er því ákveðinn forsendubrestur í þessu samkomulagi. Það stendur hins vegar til að endurskoða samkomulagið og sú endurskoðun á að hefjast fyrir 1. júní í sumar. Ég mun greiða atkvæði með þessu máli af því að þetta er mjög gott mál en treysti á að endurskoðunin feli það í sér að sveitarfélögin beri ekki skarðan hlut frá borði. Ég vil að það komi mjög skýrt fram að vegna forsendubrests eigi sveitarfélögin ekki að bera skarðan hlut frá borði.

Ég segi já.