140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

skráning og mat fasteigna.

361. mál
[12:23]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Með þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar á lögum um skráningu og mat fasteigna sem lýtur að því að fella brott ákvæði um að í gjaldskrá sé kveðið á um gjald vegna fyrirspurna úr þinglýsingabók. Það er gert ráð fyrir að tekjuaukanum sem myndist með þessum hætti verði varið til að vinna að þróun og rekstri starfs- og upplýsingakerfa sýslumannaembætta sem Þjóðskrá sér um. Er talið mjög mikilvægt að það geti farið fram þar sem kerfin eru mjög úrelt.

Af þessu tilefni urðu miklar umræður í nefndinni um það fyrirkomulag sem markaðir tekjustofnar eru. Sitt sýndist hverjum um það og það flækjustig sem það veldur í tekjuöflun ríkisins en fram hefur komið að um 20% af tekjum ríkisins komi í gegnum markaða tekjustofna, þ.e. tæpir 100 milljarðar kr. á hverju ári. Þess vegna leggur meiri hlutinn til, af því að margir í nefndinni höfðu mikinn fyrirvara við markaða tekjustofna, að vinnu við breytingar á lögum þar um verði flýtt sem kostur er þannig að jafnræði ríki með stofnunum ríkisins og ákvörðun um fjárheimildir þeirra sem eru teknar á Alþingi. Hefur fjárlaganefnd sett af stað sérstaka vinnu um það og það er ánægjuefni af því að þetta þarf að heyra sögunni til. Vegna þess hve brýn þörfin er leggjum við þetta til.