140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[12:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir fyrirspurnina. Hann hefur verið ötull talsmaður innanlandsflugsins og eðlilegt að hann kalli eftir nánari skýringum á þessum breytingum. Þær eru þannig að fallið er frá fyrirhuguðum hækkunum á kolefnisgjaldi á innanlandsflugið á næsta ári þannig að þar koma ekki neinar viðbótarálögur á það.

Hvað varðar ETS-kvótakerfið evrópska kemur sá 20 millj. kr. kostnaður sem þingmaðurinn nefnir í því sambandi ekki til útgjalda fyrir innanlandsflugið á árinu 2012 heldur kemur hann til útgjalda á árinu 2013. Ég tek undir með hv. þingmanni, það er nauðsynlegt að skoða saman annars vegar innlenda umhverfisskattlagningu og hins vegar samspil hennar við hið evrópska kerfi og gæta að því að þessi tvö kerfi spili rétt saman.