140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[12:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að tefja þessa umræðu en vil benda hv. þingmanni á að á sínum tíma var sagt að ekki væri auðvelt að reikna þetta út, að ekki lægju fyrir upplýsingar um verðmæti lífeyrisréttinda manna. Nú reikna tryggingafræðingar þetta út á hverju einasta ári við uppgjör á sjóðunum þannig að þetta liggur fyrir en það hefur ekki mátt upplýsa um það.

Fyrir Alþingi liggur frumvarp til laga um breytingu á þessu, þ.e. 407. mál sem við hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson flytjum báðir, og þar stendur einmitt að gefa eigi upp innstæður og verðmæti réttinda hjá lífeyrissjóði. Þá er fallin burt ástæðan fyrir því að ekki sé hægt að gefa upp eignir sem eru verðmæti réttinda í lífeyrissjóði. Þá er þessi ástæða fallin burt og við getum tekið inn í frumvarpið, og munum gera það væntanlega strax eftir áramót, það að lífeyrisréttindi verði metin inn í auðlegðarskatt og hann væntanlega lækkaður sem því nemur.