140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[12:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er hárrétt hjá hv. þm. Pétri Blöndal, við erum báðir á þessu máli sem hann er 1. flutningsmaður að. Þegar menn fá réttindi úr mörgum lífeyrissjóðum fá þeir samt alveg réttindi sín. Það eru málaferli í gangi, það er leiðinlegt mál, þar sem tekist er á um lífeyrisréttindi eins stjórnmálamanns fyrir dómstólum. Ég las um það í blöðunum. Þar var auðvitað eyrnamerkt í krónum og aurum. Sérstaklega í opinberu lífeyrissjóðunum þar sem þessi réttindi eru vel skilgreind er hægur vandi ef vilji er til að setja krónur og aura, þótt það séu aðallega krónur, á lífeyrisréttindin. Þetta snýst um pólitískan vilja.

Ég tel að það að skattleggja eignir en ekki tekjur standist ekki og sé ekki sanngjarnt. Mér finnst fráleitt af hv. þingmönnum og stjórnmálamönnum sem hér koma fram og mæla þessari skattlagningu bót að þeir undanskilji sjálfa sig. Það er algjörlega óþolandi, virðulegi forseti.