140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

370. mál
[13:40]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirferðina á nefndarstarfinu á milli umræðna. Mig langar að spyrja hv. þingmann um eitt atriði sem snýr að því hvernig við eigum að ná tökum á ríkisfjármálunum út frá svokölluðum mörkuðum tekjum. Nú eru komnir um 100 milljarðar í mörkuðum tekjum. Fjármálaeftirlitið fær eftirlitsgjald frá fjármálastofnunum og starfsmannafjöldinn hefur farið úr 87 í 143 síðan 2010, á tæpum tveimur árum, eins og kemur fram í umsögn fjárlagaskrifstofunnar. Ef sú ákvörðun yrði tekin á vorþingi að lækka eftirlitsgjaldið vegna þess að menn sæju fram á að þetta væri komið út í eintóma vitleysu yrðu þeir að reka stofnanirnar eftir einhverjum ákveðnum skattstofnum. Það er að mínu viti algjörlega fáránlegt. Ég kalla eftir viðhorfi hv. þingmanns til þess hvort ekki væri skynsamlegra að gera þá hluti eins og margsinnis er búið að ræða í þessum þingsal síðan ég kom hingað, færa mörkuðu tekjurnar inn í ríkissjóð og reka síðan viðkomandi stofnanir á fjárlögum hvers tíma. (Gripið fram í.)

Í umsögn fjárlagaskrifstofunnar, og ég staldraði dálítið við það, er áætlun um að stofnunin flytji í nýtt og betra húsnæði. Síðan eftirlitið gerði þá kostnaðaráætlun hefur hún farið 21% fram úr áætlun. (Gripið fram í: Þetta er …) Það eru ekki nema 20 milljónir. Það er víða búið að leita að örfáum krónum og örfáum milljónum til að reyna að verja grunnþjónustu landsins og ég spyr: Hvað finnst hv. þingmanni, þarf ekki að vanda miklu betur þegar menn fara af stað og gefa sér forsendur, hvort heldur sem þeir eru að sameina stofnanir eða flytja (Forseti hringir.) í annað (Gripið fram í.) húsnæði? (Gripið fram í: Það er annað …)