140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

370. mál
[13:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er margyfirlýst af minni hálfu að við eigum að hverfa frá hinum mörkuðu tekjustofnum í stærstum atriðum. Þar vegur þyngst ráðstöfun bensínpeninganna inn í Vegagerðina og aðrir slíkir liðir.

Það eru hins vegar nokkrir liðir sem má réttlæta að hafi sjálfstæða tekjustofna og markaðar tekjur. Fjármálaeftirlitið er kannski sú stofnun sem ríkust rökin standa til að hafi sjálfstæði og það er vegna þess að ólíkt til dæmis Vegagerðinni er gerð mjög skýr krafa um að fjármálaeftirlit í hverju landi sé sem allra sjálfstæðast. Það þarf að hafast að um gríðarlega mikla fjárhagslega hagsmuni og það þarf þess vegna til að mynda að vera eins langt frá allri pólitískri spillingu og mögulegt er. Þess vegna er reynt að standa þannig að tekjuöflun fyrir það að það sé ekki upp á náð fjárveitinga frá ári til árs heldur sé því einfaldlega lagður til sjálfstæður tekjustofn.

Þetta er auðvitað hvorki einfalt né auðvelt og Fjármálaeftirlitið þarf eftir sem áður samþykki Alþingis fyrir þessum sjálfstæðu tekjustofnum sínum en þau rök eiga þó nokkurn rétt á sér varðandi Fjármálaeftirlitið og hugsanlega aðrar stofnanir sem eiga að hafa mikið sjálfstæði. En ég tel að um leið og við föllum frá mörkuðum tekjustofnum að mestu leyti, vonandi þegar á næsta ári, tökum við aftur umræðuna um það hvort þessi rök fyrir sjálfstæðum tekjustofnum FME séu fullnægjandi.