140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

370. mál
[13:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, auðvitað erum við hv. þingmaður sammála um að stærstur hluti markaðra tekna eigi bara að renna í ríkissjóð. Hinu er ekki hægt að neita að það er munur á sjálfstæði aðila eftir því hvort hann hefur sjálfstæðan tekjustofn eða þarf að sækja undir fjárveitingar Alþingis frá einum tíma til annars. Það að hafa sjálfstæðan tekjustofn styrkir betur sjálfstæði manna. Hvort það eigi að gera almennt með stofnanir sem þurfa að njóta sjálfstæðis held ég að ekki sé nein þörf, til að mynda ekki með umboðsmann Alþingis. Það er kannski einna helst að það mætti ræða það með Samkeppniseftirlitið og einhverjar stofnanir sem mér yfirsjást. Ástæðan fyrir því að lögð er svona rík áhersla á það með Fjármálaeftirlitið er auðvitað að það höndlar um stofnanir sem hafa svo gríðarlega fjárhagslega hagsmuni og eru óskaplega valdamiklar í hverju samfélagi. Hér lögðu til dæmis bankarnir og eigendur þeirra gríðarlega fjármuni í starfsemi stjórnmálaflokkanna og starfsemi einstakra stjórnmálamanna og því er full ástæða til að gæta sérstaklega að því með Fjármálaeftirlitið að það hafi sem mest sjálfstæði í þessum efnum. Það er ekki bara íslensk saga sem sýnir okkur það, það er alþjóðleg reynsla manna að það sé mjög mikilvægt að fjármálaeftirlit í hverju landi sé ein sjálfstæðasta stofnun ríkisins.