140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

370. mál
[13:48]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil halda áfram með það sem hv. þingmenn voru að ræða og tala um prinsippið í þessu máli. Sá aðili sem hefur langharðast gagnrýnt fjárframlögin og þróunina hjá Fjármálaeftirlitinu er fjármálaráðuneytið. Menn þar telja að hér sé ekki farið eftir 41. gr. stjórnarskrárinnar. Það er ekki hægt að túlka umsögnina með öðrum hætti og ég veit ekki um neinn sem vill ekki hafa sjálfstætt fjármálaeftirlit. Ég hef að vísu efasemdir og hef gagnrýnt Fjármálaeftirlitið fyrir að vera ekki sjálfstætt í störfum sínum. Ég sakna þess að heyra ekki hv. stjórnarliða taka undir þann málflutning sem er byggður á alveg skýrum rökum. En hv. Alþingi verður að hafa það á hreinu hvernig þessu er fyrir komið. Er það þannig að enginn geti, hvorki hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra né þingið, haft áhrif á fjárheimildir Fjármálaeftirlitsins? Það er nokkuð sem við verðum að hafa á hreinu. Það er ekki hægt að hafa það í lausu lofti, það er algjörlega útilokað.

Ég vek athygli á því að fjármálaráðuneytið talar um að hér hafi verið gríðarlegur vöxtur og notar það orðalag svo ég vitni beint í umsögn fjármálaráðuneytisins. Eftirlitið hefur þrefaldast að stærð frá árinu 2007 miðað við árið 2012. Við erum að tala um það að íslenska bankakerfið er um 3% af því danska en hins vegar er Fjármálaeftirlitið 43% af danska bankaeftirlitinu. Það er nærri helmingurinn af bankaeftirlitinu en sinnir bankakerfi sem er 3% af því danska.

Danska bankakerfið fór aldeilis ekki varhluta af bankahruninu. Eftir því sem ég best veit eru mörg mikilvæg verkefni þar. Við viljum sjá sjálfstætt fjármálaeftirlit sem sinnir hlutverki sínu en það á við um fleiri stofnanir í þjóðfélaginu. Ég held að allir séu sammála um mikilvægi Fjármálaeftirlitsins en við skulum líka hafa í huga að það er hlutverk hv. þingmanna að fylgjast með fjárútlátum hins opinbera. Þó að menn komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé greitt af fjármálafyrirtækjunum notum við samt ekki sömu peningana tvisvar. Við erum að taka allra handa skatta af fjármálafyrirtækjunum og nota þá í allt mögulegt, m.a. velferðarþjónustuna, og við notum sem sagt ekki sömu krónuna tvisvar. Ef háar greiðslur renna í Fjármálaeftirlitið er minna umleikis til að taka í aðra þætti, t.d. velferðarþjónustuna. Þótt ekki væri nema út af því væri ástæða til að líta á umsögn fjármálaráðuneytisins um áætlun Fjármálaeftirlitsins. Eins og ég segi vaxa útgjöldin þrefalt á milli þessara ára en þá eru ekki teknir IPA-styrkir sem eru 371 milljón og eru fyrir utan þennan þátt málsins, þ.e. reksturinn, og fara bara beint inn í rekstur Fjármálaeftirlitsins, ofan á þá 2 milljarða sem stofnunin hefur.

Ég verð að segja að ég hef áhyggjur af sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins. Ég hef bent á það með alveg skýrum rökum og staðreyndum sem ekki er hægt að líta fram hjá að Fjármálaeftirlitið hefur horft fram hjá því, þó að það eigi að hafa eftirlit með því, að fjármálastofnanir í umsjón og vörslu hæstv. fjármálaráðherra hafa brotið lög um eiginfjárhlutfall. Þá er ég að tala um Byr og SpKef. Hver sem hefur áhuga á því getur skoðað þau gögn sem liggja til grundvallar sem við höfum fengið sem nefndarmenn í hv. efnahags- og viðskiptanefnd þannig að þar sést það alveg svart á hvítu.

Ég leyfi mér líka að segja að það veldur mér vonbrigðum hvað Fjármálaeftirlitið, sem getur ekki kvartað undan fjárskorti, hefur lítið sinnt neytendavernd á fjármálamarkaði. Sérstaklega hefur framganga þess í endurreikningi á erlendum lánum valdið mér vonbrigðum. Ég ætla ekki að skipta mér af starfsemi Fjármálaeftirlitsins en hins vegar liggur fyrir að það er lögbundin skylda að fylgja eftir og hafa eftirlit með því að lög um fjármálafyrirtæki séu framkvæmd og það er líka einn af þáttum Fjármálaeftirlitsins að sinna neytendavernd.

Ég vek athygli á því að við sjáum hérna kostnaðarliði sem ég hef í það minnsta ekki séð í öðrum opinberum stofnunum sem ég þekki til í. Þessar mikilvægu stofnanir á Íslandi sem sinna mikilvægum hlutverkum, t.d. heilbrigðismálum — ég nefni Landspítalann og það má nefna fjöldamargar aðrar stofnanir úti um allt land — þurfa að spara hverja krónu og líta til sparnaðar í öllum sínum rekstri. Mér finnst þess vegna sérkennilegt, virðulegi forseti, þegar verið er að leigja húsnæði til 15 ára með verðtryggðum samningi. Eftir því sem ég best veit er fermetraverðið 3 þús. kr. í leigu til 15 ára og á sama tíma segir hæstv. fjármálaráðherra að það eigi að sameina Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann. Fyrir nokkru tókum við umræðu, og ég held að flestir hafi verið hneykslaðir þá, um nokkuð sambærilega langan samning fyrir landlæknisembættið sem gerði það að verkum að ríkissjóður þurfti að greiða leigu fyrir autt húsnæði eftir að landlæknisembættið var flutt eftir sameiningu við Lýðheilsustöð.

Mér finnst það sérkennilegt á þessum sparnaðartíma að svona sé gengið fram. Á sama hátt eru þar húsgagnakaup upp á 54 millj. kr., um 400 þús. kr. á starfsmann. Við erum að tala um risnu og jólagjafir fyrir starfsmenn upp á 7 millj. kr., þ.e. 50–55 þús. kr. á hvern einasta starfsmann. Stjórnarformaður er með 600 þúsund, hækkaði úr 220 þúsund á mánuði upp í 600 þúsund á mánuði, hækkaði um 175% í einu vetfangi. Fyrrverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra framkvæmdi það og síðan eru aðal- og varamenn sömuleiðis með 200 þúsund í mánaðarlaun. Það getur vel verið að þetta sé eðlilegt en þetta tíðkast ekki annars staðar og mér hafa ekki fundist vera færð sannfærandi rök fyrir þessu. Ég veit ekki til þess að nein nefnd á vegum þingsins líti til þessa eða aðrir aðilar sem ættu að hafa eftirlit með því. Til að mynda hefur hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sagt að hann geti haft mjög lítil, ef nokkur, áhrif á rekstur stofnunarinnar og ef ráðherra hefur ekki eftirlit með henni og ef hv. þingnefndir hafa ekki eftirlit með henni, hver hefur þá eftirlitið? Það er ekki hægt að halda því fram að þetta snúist um það hvort menn vilji hafa gott og öflugt bankaeftirlit eða ekki eða hvort menn vilji rannsaka hvað gerðist í aðdraganda hrunsins því að allar slíkar röksemdir falla um sjálfar sig. Mjög lítill hluti af starfsemi Fjármálaeftirlitsins sinnir slíkum þáttum, þ.e. rannsókn í aðdraganda hrunsins, og ég veit ekki til þess að neinn ágreiningur sé um það á hv. Alþingi að þeim verkefnum sé sinnt. Undir forustu hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, Geirs H. Haarde, var settur sérstakur saksóknari í að fara yfir þau mál og ákæra þá sem hafa brotið af sér í aðdraganda hrunsins og ég veit ekki til þess að nein önnur þjóð hafi gert slíkt. Það eru því ekki rök í málinu.

Aðalatriðið er að það á að hafa öflugt og sjálfstætt fjármálaeftirlit. Ég hef áhyggjur af því að það sé ekki nægilega sjálfstætt í störfum sínum og sinni ekki því eftirliti sem snýr að opinberum aðilum. Þá vitna ég í tvennt, annars vegar í lög um eiginfjárhlutfall varðandi Byr og SpKef. Ég hefði getað vitnað í fleiri hluti í því sambandi sem allir hafa komið fram opinberlega. Hins vegar hef ég áhyggjur af neytendaverndinni.

Síðan verða menn að hafa eitthvert fyrirkomulag þannig að haft sé eftirlit með útgjöldum og rekstri á þessum stofnunum eins og öllum öðrum. Við erum hér með fjöldamargar gríðarlega mikilvægar stofnanir sem mjög góð og breið pólitísk samstaða er um að við viljum sinna vel. Ég nefni sérstaklega heilbrigðismálin, af því að þau eru mér kær og ég þekki vel til þar, en samt hvarflar ekki annað að neinum manni en að við höfum eftirlit með þeim stofnunum og fylgjum eftir 41. gr. stjórnarskrárinnar um að einungis Alþingi ákveði fjárheimildir til þessara aðila.

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram að hv. fjárlaganefnd fór fram á stjórnsýsluúttekt á Fjármálaeftirlitinu. Við tökum undir það en ég vek athygli á því að hugmyndin um útgjaldaáætlun til Fjármálaeftirlitsins kom fram 5. desember, þrem mánuðum eftir að fjárlagafrumvarpið var lagt fram. Augljóst var að hv. fjárlaganefnd taldi sig ekki hafa tíma til að fara almennilega yfir þennan þátt málsins sem er þó augljóslega þörf á ef marka má umsögn fjármálaráðuneytisins. Síðan er annað sem ég ætla ekki að ræða hér en augljóslega eru samskipti hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra nokkuð sérstök og er það orðið ágætlega skjalfest ef menn skoða þessi mál.

Virðulegi forseti. Ég hvet menn til að kynna sér nefndarálit frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Ég fór ekki í gegnum alla þætti þar en hins vegar held ég að það sé býsna tæmandi lýsing á þeim álitaefnum sem hér eru uppi. Kannski er aðalprinsippið í þessu máli það að Alþingi ákveður útgjöld til þessara stofnana eins og annarra. Ef það er gert með einhverjum öðrum hætti liggur alveg fyrir að við þurfum að huga að því hvernig við getum haft eftirlit með því eins og öllu öðru í okkar opinbera rekstri.