140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

370. mál
[14:01]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir ræðuna. Mér fannst það mjög áhugavert sem þingmaðurinn sagði um þessar athugasemdir úr fjármálaráðuneytinu. Ég tel að þeir séu að benda á aðferðafræðina, hvernig við leggjum á skatta og gjöld á vegum hins opinbera.

Ég las nýlega grein þar sem fjallað var um nefskatta eins og við höfum sett á varðandi RÚV og sambærilegt fyrirkomulag í Hollandi. Það var að vísu tiltölulega neikvæð umfjöllun um þá aðferðafræði þar sem bent var á að reynslan í Hollandi hefði verið sú að þrátt fyrir að lagður væri á þessi nefskattur sem hefði jafnvel leitt til aukinna tekna færi síðan minni hluti í stofnunina sjálfa, ríkisútvarpið í Hollandi. Ég held að það sé líka reynslan á Íslandi, ríkissjóður hefur tekið peninga sem voru sérstaklega hugsaðir til að standa undir kostnaði við ákveðna stofnun og notað í önnur verkefni. Ég held að við ættum að ræða þetta út frá þessu, um fjármálaráðuneytið, RÚV og fleiri stofnanir. Fjármálaráðuneytið hefur kallað eftir því að það fái að ráðstafa þessum peningum og ég er ekki svo viss um að það sé best að fjármálaráðuneytið stjórni þessu. Þetta er mjög stór spurning og við svörum henni ekki endilega í þessu máli. Þetta er þó tvímælalaust nokkuð sem við verðum að ræða og gera okkur þá grein fyrir hver afleiðingin getur orðið.