140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

370. mál
[14:03]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir þetta andsvar. Ég held að það sé nákvæmlega rétt hjá hv. þingmanni, þetta er nokkuð sem við þurfum að fara yfir. Ég veit ekki hvort ég er að gera upp á milli stofnana en mér finnst Fjármálaeftirlitið gegna mikilvægara hlutverki en Ríkisútvarpið. Það er mín skoðun með fullri virðingu fyrir Ríkisútvarpinu.

Stóra einstaka málið er, án þess að maður fari að flokka hið opinbera í eftirlitsstofnanir eða stofnanir sem við teljum mikilvægar í þjóðfélaginu af einhverjum ástæðum, að það verður að vera einhvers konar aðhald. Tilfinning mín eftir að vera búinn að fara í gegnum þetta í hv. efnahags- og viðskiptanefnd er að enginn veitir aðhald og enginn hefur almennileg svör við þeim spurningum sem koma upp í tengslum við rekstur þessarar stofnunar. Mér er fullkomlega óskiljanlegt, eftir að við tókum þessa landlæknisumræðu hér, af hverju menn gera 15 ára verðtryggðan leigusamning með mjög hárri leigu. Hæstv. fjármálaráðherra hefur talað um að sameina FME og SÍ. Hvað verður þá með húsnæðið? Við sitjum uppi með, svo ég taki bara eitt dæmi, háa húsaleigu fyrir húsnæði sem verður þá autt og við þurfum að fylla upp í með einhverjum hætti.

Alls staðar hjá hinu opinbera eru menn í blóðugum niðurskurði, m.a. á stofnunum sem eru það mikilvægar að það snertir hreinlega líf og limi landsmanna. Síðan er ein stofnun sem að því er virðist er án mikils aðhalds og það er ekki gott. Flestar stofnanir geta sagt: Við gegnum gríðarlega mikilvægu hlutverki. Það er allt satt og rétt en þýðir ekki að ekki sé aðhald með þeim. Hér virðist mér kerfið hafa einhvern veginn spólað sjálft áfram án eftirlits og enginn hefur svör við þeim spurningum sem upp er velt.