140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

370. mál
[14:05]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki viss um að aðhaldið kæmi endilega með því að breyta því hvernig við rukkum inn þetta gjald, hvort það færi beint í ríkissjóð eða beint í stofnunina eins og nú er. Aðhaldið held ég að verði að koma annars staðar að. Við sem sátum í þáverandi viðskiptanefnd lögðum mikla áherslu á það þegar gerð var ein stærsta breytingin á lögum um fjármálafyrirtæki sem hefur verið gerð eftir hrun að þar kæmi inn bráðabirgðaákvæði sem í raun væri mörkuð ákveðin stefna um það hvernig við vildum hafa fjármálamarkaðinn uppbyggðan. Eitt af því sem við vorum að ræða þar var sameining á Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu. Því miður hefur skýrsla um þá stefnumörkun sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur látið vinna ekki enn komið inn í þingið þó að hann hafi boðað að hún yrði rædd á haustdögum. Ég held að þá sé mjög brýnt að við skoðum það út frá því hvernig við getum bætt aðhald okkar með stofnuninni en ég er ekki viss um að lausnin á því sé að rukkunin á þessu gjaldi fari í gegnum fjármálaráðuneytið eins og umsögn fjármálaráðuneytisins virðist gefa til kynna.